2006 Garðar Örn Úlfarsson gegn Ásbirni K. Morthens og Ásbjörn K. Morthens gegn Garðari Erni Úlfarssyni og 365 prentmiðlum ehf.

Ásbjörn K."Bubbi" Morthens, tónlistamaður  krafðist þess að forsíðufyrirsögnin ,,Bubbi fallinn“ í vikublaðinu Hér & nú og samhljóða fyrirsögn á blaðsíðu 16 til 17 í sama tölublaði yrði dæmd dauð og ómerk. Þá krafðist hann þess að Garðar Örn Úlfarsson, ritstjóri vikublaðsins, og 365 prentmiðlum ehf, útgefandi þess, yrðu dæmdir óskipt eða hvor um sig til að greiða honum 20.000.000 króna í miskabætur. Í dómi Hæstaréttar var tekið fram að samkvæmt 3. mgr. 15. gr. laga nr. 57/1956 um prentrétt yrði ábyrgð á efni sem birtist í riti ekki lögð bæði á útgefanda þess og ritstjóra að höfundi frágengnum heldur aðeins annan hvorn þeirra. Samkvæmt því og þar sem Garðar hafði verið talinn bera bótaábyrgð í héraði og Ásbjörn ekki krafist þess að 365 prentmiðlar yrði dæmdur í stað hans var staðfest niðurstaða héraðsdóms um sýknu útgefandans. Ekki var talið unnt að skilja forsíðufyrirsögnina öðruvísi en svo að fullyrt væri að Ásbjörn væri byrjaður að neyta vímuefna, enda væri þorra þjóðarinnar kunnugt um vímuefnaneyslu hans fyrr á árum. Eins og fullyrðingin var fram sett var hún talin fela í sér ærumeiðandi aðdróttun og voru ummælin dæmd dauð og ómerk. Hins vegar var ekki talið að samhljóða fyrirsögn á blaðsíðu 16 til 17 í tölublaðinu fæli í sér fullyrðingu um vímuefnanotkun Ásbjörns eða aðdróttun í skilningi hegningarlaga, enda væri hún í samhengi við texta þar sem greint var frá því að Ásbjörn hefði hafið reykingar á ný. Fallist var á að Ásbjörn ætti rétt á miskabótum úr hendi Garðars vegna þeirra ummæla sem birtust á forsíðu tölublaðsins. Miskabótakrafa Ásbjörns var einnig reist á því að friðhelgi einkalífs hans hefði verið rofin með óheimilli birtingu mynda og umfjöllun um einkamálefni hans í umræddu tölublaði. Vísað var til þess að umræddar myndir hefðu verið teknar án samþykkis eða vitundar Ásbjörns og að friðhelgi einkalífs nyti verndar samkvæmt 71. gr. stjórnarskrárinnar. Þegar metnar væru þær skorður sem friðhelgi einkalífs setti tjáningarfrelsinu var talið skipta grundvallarmáli hvort hið birta efni, myndir eða texti, gæti talist þáttur í almennri þjóðfélagsumræðu og ætti þannig erindi til almennings. Ekki var talið að þær myndir sem til umfjöllunar væru tengdust á nokkurn hátt slíkri umræðu. Vísað var til þess að Ásbjörn hefði verið á ferð um Reykjavík á bifreið sinni þegar umræddar myndir voru teknar og var talið að hann hefði við þær aðstæður með réttu mátt vænta þess að friðhelgi einkalífs síns yrði virt. Hefði sú friðhelgi verið brotin með birtingu umræddra mynda og verið framin meingerð gegn friði og persónu Ásbjörns sem Garðar bæri miskabótaábyrgð á. Þar sem Ásbjörn hafði oftar en einu sinni gert baráttu sína við tóbaksfíkn að umræðuefni í viðtölum við fjölmiðla var ekki talið að ummæli á 17. síðu tölublaðsins um reykingar hans gætu talist brot á friðhelgi einkalífs hans. Samkvæmt framansögðu var talið að Ásbjörn ætti rétt til miskabóta úr hendi Garðars bæði vegna ærumeiðandi aðdróttana og brota á friðhelgi einkalífs og þótti fjárhæð þeirra hæfilega ákveðin 700.000 krónur.

Skilgreining   á eðli máls Niðurstaða dóms Bótaupphæð Bótaupphæð   (framreiknuð til 2013) Málskostnaður Hver er ábyrgur Dómur undirréttar   (hvaða ?)
Friðhelgi   einkalífs Sekt 700000 1104638,36 500000 Garðar Örn Úlfarsson, ritstjóri Héraðsdómur Reykjavíkur   óraskaður