2006 Jónas Kristjánsson og Mikael Torfason gegn Gunnari Hrafni Birgissyni og Gunnar Hrafn Birgisson gegn Jónasi Kristjánssyni, Mikael Torfasyni og 365 miðlum eh

Gunnar Hrafn Birgisson, sálfræðingur, höfðaði mál á hendur ritstjórunum Jónasi Kristjánssyni og Mikael Torfasyni og útgáfufélaginu 365 miðlum vegna ummæla sem birtust í blaðinu DV og lutu að ítrekuðum staðhæfingum um að 150 kvartanir og klögumál hefðu verið borin upp við félagið Félag ábyrgra feðra vegna starfa Gunnars. Segir í niðurstöðu Hæstaréttar að ummælin hefðu átt það sammerkt að fela í sér fullyrðingar um staðreyndir og að þau yrðu ekki réttlætt með því að um gildisdóma hefði verið að ræða. Jafnframt voru ummælin dregin upp á mjög áberandi hátt og til þess fallin að varpa rýrð á störf Gunnars. Ritstjórum og útgefanda hefði mátt vera fulljóst að atlaga blaðsins gegn Gunnari hlyti að bitna harkalega á honum þegar höfð væru í huga þau trúnaðarstörf, sem hann gegndi í viðkvæmum málum og því hefði verið enn ríkari þörf á vandaðri könnun staðreynda. Fyrir Hæstarétti breytti Gunnar kröfum sínum þannig að til vara var öllum kröfum hans beint að 365 miðlum, en að Jónasi og Mikael að 365 miðlum frágengnum. Var fallist á að Gunnari hefði verið heimilt að breyta kröfum sínum í þetta horf fyrir Hæstarétti, enda hefðu þær rúmast innan upphaflegrar kröfugerðar hans og að hann hefði val að þessu leyti. Þar sem ábyrgð, að höfundi frágengnum, yrði ekki lögð bæði á ritstjóra og útgefanda sbr. 3. mgr. 15. gr. laga nr. 57/1956 um prentrétt voru Jónas og Mikael sýknaðir. Að öllu virtu var staðfest niðurstaða héraðsdóms um ómerkingu ummæla, en ekki þóttu efni til að beita refsingu. Einnig voru Gunnari dæmdar miskabætur úr hendi 365 miðla og fjárhæð til að standa straum af kostnaði við birtingu dóms.

Skilgreining   á eðli máls Niðurstaða dóms Bótaupphæð Bótaupphæð   (framreiknuð til 2013) Málskostnaður Hver er ábyrgur Dómur   undirréttar (hvaða ?)
Meiðyrði Sekt 1200000 1893665,77 1200000 365 miðlar, útgefandi Héraðsdómur Reykjavíkur dæmdi   ritstjóra seka, en útgáfufélaginu sýkn. Hæstiréttur snéri dóminum við. 

 

Slóð á dóminn: https://secure.creditinfo.is/Modules/Judgements/Ruling.aspx?c=BeAmnpzVhffxtSKkPNMoM2VedtEmew2LgrIzIdbc4XAQOx%2fQ84ew8EhIQdYXUF8ernNPlRoE7wdI0FPYtEWfnU8Knc0wTvCXZqVC03QA5JXf6SQnqaebt6TKqYxtOT%2b53AnqkLQuVBD63S2VmMX0OeNIY3NPqnUVyJOBfzPU%2ftLrEVLibNLsYBZA38tdOgWj