- Félagið
- Faglegt
- Kaup & kjör
- Styrkir & sjóðir
- Orlofskostir
- Mínar síður
Frjáls miðlun ehf., Brynhildur Gunnarsdóttir og Guðjón Gísli Guðmundsson höfðuðu mál gegn bæjarfulltrúum Samfylkingarinnar í Kópavogi, Guðríði Arnardóttur, Ólafi Þór Gunnarssyni og Hafsteini Karlssyni vegna ummæla sem þau síðarnefndu höfðu uppi vegna viðskipta Frjálsrar miðlunar ehf. og Kópavogs í Morgunblaðinu og Fréttablaðinu. Ekki var fallist á að sýkna bæri Guðríði, Ólaf og Hafstein vegna aðildarskorts, enda máttu lesendur álykta af orðalagi þeirra ummæla sem ómerkingar var krafist á að með þeim væri að minnsta kosti öðrum þræði gefið í skyn að Frjáls miðlun ehf., Brynhildur Gunnarsdóttir og Guðjón Gísli Guðmundsson hefðu krafið Kópavog um greiðslur fyrir þjónustu án þess að fyrir lægi að til þess hefði verið fullt tilefni. Í dómi Hæstaréttar var rakið að umfjöllun um ætlaðar brotalamir í stjórnsýslu Kópavogs í tilefni af skýrslu og greinargerð endurskoðunarfyrirtækisins Deloitte hf. hefði varðað opinber málefni og átt fullt erindi til almennings. Guðríður Arnardóttir, Ólafur Þór Gunnarsson og Hafsteinn Karlsson hefðu verið kjörnir bæjarfulltrúar í Kópavogi þegar ummæli þeirra féllu og höfðu sem slíkir sérstakt aðhalds- og eftirlitshlutverk. Mikilvægt þótti að færi þeirra til að rækja þetta hlutverk yrði ekki heft umfram það sem brýnir lögvarðir hagsmunir annarra krefðust. Í umræðum um ónógt aðhald og eftirlit af hálfu Kópavogs með viðskiptum sveitarfélagsins við Frjálsa miðlun ehf. þótti óhjákvæmilegt að í einhverju mæli yrði fjallað um fyrirtækið og reikningsgerð af þess hálfu. Talið var að Frjáls miðlun ehf. yrði að þola slíka umræðu að vissu marki og var vísað til þess að fyrirtækið hefði um árabil átt verulegan hluta viðskipta sinna við Kópavog. Einnig var bent á að ummæli Guðríðar, Ólafs og Hafsteins hefðu fallið í kjölfar skýrslu og greinargerðar þekkts endurskoðunarfyrirtækis þar sem viss gagnrýni kom fram á fyrirkomulag viðskipta Kópavogs og Frjálsrar miðlunar ehf. Litið var til þess að vafi um það fyrir hvað Kópavogur hafði greitt Frjálsri miðlun ehf. var að hluta til risinn af ófullkominni reikningsgerð félagsins og virtust athugasemdir Deloitte um þetta hafa verið réttmætar. Í greinargerð Deloitte hafði verið gagnrýnt að tveimur verkum sem Frjálsrar miðlunar ehf. var greitt fyrir hefði verið ólokið og óljóst hvort bærinn hefði fengið eitthvað fyrir þá vinnu sem greitt var fyrir. Að mati Hæstaréttar voru ekki komnar fram fullnægjandi skýringar á þessum atriðum af hálfu Frjálsrar miðlunar ehf. Varðandi ummæli Guðríðar um að mögulegt væri að vísa málinu í opinbera rannsókn og til ríkissaksóknara var í dómi Hæstaréttar tekið fram að öllum væri heimilt að kæra ætlaða refsiverða háttsemi til lögreglu eða ákæruvalds, nema fyrirmæli þagnarskyldu stæðu því í vegi. Í ljósi þessa taldi Hæstiréttur að nægilegt tilefni hefði verið til að Guðríður, Ólafur og Hafsteinn viðhöfðu þau ummæli sem krafist var ómerkingar á og að þau hefðu ekki gengið nær Frjálsri miðlun ehf., Brynhildi og Guðjóni en efni stóðu til. Voru Guðríður, Ólafur og Hafsteinn því sýknuð.
Skilgreining á eðli máls | Niðurstaða dóms | Bótaupphæð | Bótaupphæð (framreiknuð til 2013) | Málskostnaður | Hver er ábyrgur | Dómur undirréttar (hvaða ?) |
Meiðyrði | Sýkna | 0 | 0 | 1140000 | Ekki tekin afstaða | Héraðsdómur Reykjaness, óraskaður |