Mál 4/2002-2003

Kærandi: Björn Ólafur Hallgrímsson
Kærði: Reynir Traustason, fyrrverandi blaðamaður DV og Jón Trausti Reynisson blaðamaður DV
Kæruefni: Forsíðurétt í DV 1. ágúst undir fyrirsögninni „Réðst á flugfreyjur" og frétt á síðu 2, sama dag, undir fyrirsögninni „FBI handjárnaði flugdólg og flutti frá borði". Einnig er kærð frétt sem birtist 2. ágúst á síðu 2 undir fyrirsögninni „Ágætur maður en slæmur með víni". Tvær fyrri fréttirnar eru merktar rt en sú þriðja er merkt jtr. Kæran barst í bréfi skrifuðu 30. september 2002. Hún var lögð fram á fundi siðanefndar 7.10. og rædd á fundum nefndarinnar 14.10., 21.10., 28.10. og 4.11. Annað bréf barst frá kæranda dagsett 21. október. Reynir Traustason sendi siðanefnd greinargerð um kæruefnið dagsetta 19. október 2002.

Málavextir

Hinn 1. ágúst s.l. birti DV frétt undir fimm dálka fyrirsögn „Réðst á flugfreyjur". Í fréttinni var greint frá því að miðaldra maður hefði tryllst í Flugleiðavél á leið til Minneapolis, að hann hefði veist að þremur flugliðum og slegið flugfreyjur, að FBI hefði handtekið manninn og flutt frá borði, að hann hefði verið sendur til baka í lögreglufylgd, að Flugleiðir íhuguðu að kæra manninn til íslenskra lögregluyfirvalda. Fram kom að DV hefði rætt við manninn skömmu eftir lendingu, að hann væri löglærður og að hann hefði skilning á aðgerðum Flugleiða gegn sér. Forsíðufréttinni er fylgt eftir á síðu 2 með nánari lýsingu atvika. Þar segir að maðurinn hafi verið á ferð í 45 manna hópi harmónikuunnenda sem voru á leið í tveggja vikna rútuferðalag um Bandaríkin og Kanada. Atburðarásinni í flugvélinni er lýst og tekið fram að maðurinn sé löglærður og kunnur borgari. Þá er rætt við blaðafulltrúa Flugleiða sem staðfesti að maðurinn hafi verið sendur heim og muni bera kostnað af heimför sinni og fylgdarmanna.

Daginn eftir, 2. ágúst, birti DV frétt á síðu 2 undir fyrirsögninni „Ágætur maður en slæmur með víni". Uppistaða þeirrar fréttar er viðtal við Árna G. igurðsson flugstjóra. Fram kemur að Árni var farþegi í umræddu flugi og því er lýst hvernig hann og áhöfnin bar sig til við að róa „ölvaða flugdólginn".

Athugasemdir bárust DV um að farþeginn hefði ekki verið í hópferð Harmónikufélagi Reykjavíkur (HR). Hinn 7. ágúst birti blaðið eftirfarandi leiðréttingu: „Vegna fréttar DV í liðinni viku um mann sem gripinn var ölæði og veittist að fólki í Flugleiðavél, skal tekið fram að ranglega var hermt að hann hafi verið á ferð í hópi 45 harmonikuunnenda á leið í ferðalag um Bandaríkin og Kanada. Maðurinn var hópnum óviðkomandi. Beðist er afsökunar á mistökunum."

Björn Ólafur Hallgrímsson kærir ofangreindan fréttaflutning á þeim forsendum að hann hafi bitnað á honum og fjölskyldu hans að ósekju. Í kærunni segist Björn vera kunnur borgari, löglærður og félagi í HR. Fréttaflutningur DV hafi tengt hann og HR við umrætt atvik, báðum til tjóns.

Formaður og varaformaður HR, ásamt Birni Ólafi, leituðu leiðréttingar hjá DV. áttafundur fór fram 15. ágúst og segir Björn Ólafur að þar hafi Reynir beðist stuttlega afsökunar. Í kæru Björns kemur framað leiðrétting hafi birst í DV 17. ágúst. Þess er ekki getið í hverju hún fólst, en fyrri leiðrétting og afsökunarbeiðni frá 7. ágúst er sögð ófullnægjandi.

Í kærunni segir að frétt DV hafi verið röng í veigamiklum atriðum. Umræddur farþegi hafi ekki verið á ferð í 45 manna hópi harmónikuunnenda, ekki á leið í tveggja vikna rútuferðalag og teljist varla miðaldra. En öll þessi atriði eigi við um Björn Ólaf.

Siðanefnd barst varnarbréf frá Reyni Traustasyni, dagsett 19. október 2002. Reynir bendir á að í fréttinni hafi verið rætt við farþegann sem uppnáminu olli, að blaðafulltrúi Flugleiða hafi staðfest atburðina og að auki hafi hann rætt við heimildarmenn símleiðis er fréttin var undirbúin. Reynir bendir á að Harmónikufélag Reykjavíkur sé hvergi nefnt í fréttinni, en að leiðrétting hafi verið birt til að taka af öll tvímæli. Þá hafi sáttafundur verið haldinn um miðjan ágúst og segir Reynir að sátt hafi þá verið handsöluð við HR og hún hafi falist í því að DV hafi fallist á að birta frásögn af ferðalagi félagsins um Kanada í fjórdálka grein. Í lok þeirrar greinar er enn beðist velvirðingar á ranghermi og þeim óþægindum sem það hafi valdið að fréttaflutningur af ólátum farþega hafi tengst HR.

Umfjöllun

Siðanefnd telur að Reynir Traustason hafi vandað fréttaskrif sín í meginatriðum. Hann leitaði staðfestingar fréttarinnar hjá umræddum farþega sem viðurkenndi ólæti sín. Jafnframt leitaði hann til blaðafulltrúa Flugleiða sem staðfesti fréttina. Frásögn þessara lykilaðila verður að teljast traust heimild fyrir fréttinni. Rétt er að misvísun kom fram í fréttinni, þ.e. lesandi gat leitt að því líkur að umræddur farþegi tengdist HR þótt aðeins hafi verið sagt að hann hafi verið í hópi harmonikuunnenda. isvísunin var leiðrétt og afsökunar beðist við fyrsta tækifæri. Hvort tveggja var síðar ítrekað í ítarlegri grein er birtist 17. ágúst sem hluti sáttar DV og HR. Ekki verður annað séð en að Reynir Traustason og DV hafi lagt sig fram um að leiðrétta það sem missagt var í upphaflegri frétt.

Afleiðingar af ólátum í flugi eiga að vera löglærðum mönnum ljósari en öðrum farþegum. Það eykur vægi umræddrar fréttar að þar átti löglærður maður hlut að máli. Það er því eðlilegt að þess hafi verið getið í fréttinni. Ekki er við blaðamann að sakast þótt fleiri löglærðir menn hafi verið í vélinni. á misskilningur að viðkomandi hafi verið á ferð með harmonikuunnendum var óheppilegur en breytir ekki því að blaðamaður telst hafa vandað upplýsingaöflun sína svo sem kostur var.

Kærandi beinir því til nefndarinnar, sem sjálfstæðu athugunarefni, hvort orðanotkunin „flugdólgur" sé viðeigandi í fréttaskrifum. iðanefnd sér ekkert athugavert við notkun nýyrðisins „flugdólgur" og að þeim sem hagar sér dólgslega í flugi sé lýst sem flugdólgi.

Úrskurður

Reynir Traustason og Jón Trausti Reynisson hafa ekki brotið siðareglur Blaðamannafélags Íslands.

Reykjavík 4. nóvember 2002

Þorsteinn Gylfason, Ásgeir Þór Árnason, Hreinn Pálsson, Hjörtur Gíslason, Sigurveig Jónsdóttir