- Félagið
- Faglegt
- Kaup & kjör
- Styrkir & sjóðir
- Orlofskostir
- Mínar síður
Kærandi: Jónína Bjartmarz
Kærð: Ríkisútvarpið ohf., fréttamennirnir Helgi Seljan, Sigmar Guðmundsson og Jóhanna Vilhjálmsdóttir, og fréttastofa Sjónvarps.
Kæruefni: Kærð er umfjöllun Ríkisútvarpsins Sjónvarps um veitingu ríkisborgararéttar til sambýliskonu sonar kæranda. Nánar tiltekið snýr kæran að umfjöllun Kastljóss um málið 26. apríl, fréttamaður Helgi eljan, og fréttar í Sjónvarpinu sama dag, og umfjöllun Kastljóss dagana 27. apríl, fréttamaður Helgi Seljan, og 30. apríl, fréttamaður Sigmar Guðmundsson, og 2. maí 2007, fréttamaður Jóhanna Vilhjálmsdóttir. Kærandi telur umfjöllun þessa varða við 3. gr. siðareglna Blaðamannafélags Íslands.
Málið var kært til siðanefndar með bréfi dags. 11. maí 2007. Kærandi sendi siðanefnd jafnframt útskrift Fjölmiðlavaktarinnar af kærðri umfjöllun, DVD disk með umfjöllun Kastljóss, opið bréf Jónínu Bjartmarz í Morgunblaðinu 3. maí, bréf Jónínu Bjartmarz til Páls Magnússonar útvarpsstjóra, dags. 9. maí, yfirlýsingu Þórhalls Gunnarssonar ritstjóra Kastljóss sem birtist í Morgunblaðinu 4. maí, fréttatilkynningu frá dóms- og kirkjumálaráðuneytinu, dags. 3. maí 2007, ásamt útskrift af vefsíðu ráðuneytisins, yfirlit yfir veitingu ríkisborgararéttar á 130.-133. löggjafarþingum, afrit af tölvupósti frá deildarstjóra fastanefnda Alþingis um veitingu ríkisborgararéttar á 133. löggjafarþingi, umsókn Luciu Celesti Solina Sierra um íslenskan ríkisborgararétt, ásamt fylgiskjölum, og ýmis fleiri gögn. Andmæli Ríkisútvarpsins bárust siðanefnd 5. júní. Siðanefnd fjallaði um málið á fundum sínum 21. maí og 7. og 15. júní 2007.
Hinn 16. mars 2007 voru samþykkt á Alþingi lög um veitingu ríkisborgararéttar og með þeim öðluðust 18 einstaklingar íslenskan ríkisborgararétt, en umsókn þar um hafði borist frá 23 erlendum ríkisborgurum. Fjallað var um þessa veitingu í Kastljósi 26. apríl og þá sérstaklega einn umsækjandann, sambýliskonu sonar kæranda, sem þá var umhverfisráðherra. Næstu daga var haldið áfram að fjalla um málið í Kastljósi.
Kærandi telur að umfjöllun Ríkisútvarpsins um málið í Kastljósi fari gegn 3. gr. siðareglna Blaðamannafélags Íslands. Kveðst kærandi hafa gert ...alvarlegar athugasemdir við málatilbúnað Kastljóss..." í opnu bréfi í orgunblaðinu hinn 3. maí, auk þess sem þess hafi verið freistað ...að leiðrétta staðreyndavillur í umfjölluninni," eins og segir í kærunni. Þessu opna bréfi svaraði Þórhallur Gunnarsson, ritstjóri Kastljóss, daginn eftir í sama blaði þar sem hann sagði Kastljós standa við sína umfjöllun um málið. Kærandi sendi þá útvarpsstjóra bréf, dags. 9. maí, þar sem þess var krafist að ...umfjöllunin í Kastljósi yrði leiðrétt, dregnar yrðu fram réttar staðreyndir málsins og beðist yrði afsökunar á umfjölluninni," eins og segir í kærunni. Kærandi kveðst engin viðbrögð hafa fengið frá Ríkisútvarpinu.
Kærandi telur að öll umfjöllunin varði hagsmuni hennar sérstaklega, enda verði að telja að umfjöllun um L hafi í reynd ekki tengst L sérstaklega heldur eingöngu lotið að tengslum við kæranda. Í því sambandi skal m.a. bent á að fyrir birtingu þáttarins var ekki leitað álits eða umsagnar L, heldur eingöngu leitað eftir viðbrögðum kæranda."
Kærandi segir rangar fullyrðingar og meiðandi ummæli hafa verið í umfjölluninni 26. apríl og segir að telja verði að hún hafi haft það markmið fyrst og fremst að vanvirða sig og valda sér hneisu og álitshnekki. Beri þá sérstaklega að hafa í huga stöðu kæranda í aðdraganda alþingiskosninganna 12. maí 2007. Ljóst er að fréttamaður vanrækti skyldu sína til upplýsingaöflunar auk þess sem telja verður að úrvinnsla og framsetning hafi ekki haft það að markmiði að sýna fyllstu tillitssemi, en telja verður að umfjöllunarefnið hafi verið vandasamt, hvort tveggja vegna stöðu kæranda sem alþingismanns, ráðherra og frambjóðanda til Alþingis og einnig þar sem fjallað var um persónuleg málefni þriðja aðila, L, einstaklings sem eingöngu tengdist kæranda fjölskylduböndum."
Kærandi tilgreinir ýmis atriði þar sem rangt hafi verið farið með staðreyndir í umfjölluninni, bæði 26. apríl og síðar, og þar sem orðalag hafi verið misvísandi.
Í greinargerð kærðu til siðanefndar er þess krafist að því verði hafnað að kærðu hafi brotið gegn siðareglum Blaðamannafélags Íslands. Þar segir m.a.: Að mati kærðu getur ekki annað falist í kærunni en að siðanefndin fjalli um málið í heild og leggi á það mat enda skal siðanefndin samkvæmt 4. mgr. 6. gr. siðareglnanna kanna heildarumfjöllun um mál í fjölmiðli. Af þeim sökum verði einstakar setningar ekki slitnar út úr umfjölluninni og þau ummæli skoðuð úr samhengi, líkt og sjálfstætt stæðu. ega og meta verði tilgreind ummæli út frá heildinni."
Í greinargerðinni er einstökum liðum í kærunni mótmælt. Hvað varðar ónákvæmni í fyrsta Kastljóssþættinum um málið segir m.a.: Kærðu benda á að ekki sé hægt að saka þau um óvönduð vinnubrögð, þar sem fréttin og umfjöllunin var studd eins traustum heimildum og gögnum og hægt var að fá, sem bæði kærandi og nefndarmenn [allsherjarnefndar] neituðu að tjá sig um í fyrstu. Það var síðan ekki fyrr en umfjöllunin hafði farið af stað að kærandi bað um viðtal og síðar, að formaður allsherjarnefndar kom í viðtal og skýrði stöðu nefndarinnar. Þá komu fram í dagsljósið upplýsingar sem fram að þeim tíma höfðu ekki verið aðgengilegar."
Siðanefnd telur að það sé sjálfsögð skylda fjölmiðla að veita stjórnvöldum aðhald og taka upp mál sem bent geta til þess að misfarið sé með vald. Fréttagildi þess máls sem hér er til umfjöllunar er því ótvírætt og hefði kærandi mátt gera sér ljóst að afgreiðsla þessa máls gæti vakið upp spurningar og að fjallað yrði um það í fjölmiðlum.
Samkvæmt greinargerð kærðu var það einkum þrennt sem vakti athygli við afgreiðslu á umræddri umsókn um ríkisborgararétt. Í fyrsta lagi hve hraða afgreiðslu málið hefði fengið, en 10 dagar liðu frá því að umsókn var lögð fram þar til Alþingi veitti umsækjandanum íslenskan ríkisborgarrétt ásamt 17 öðrum umsækjendum. Í öðru lagi var, samkvæmt heimildum fréttamannsins, ástæða umsækjanda fyrir undanþágu frá skilyrðum laga ekki talin eiga sér sambærilegt fordæmi. Í þriðja lagi tengdist umsækjandi þáverandi umhverfisráðherra. Þessi atriði öll komu til skoðunar í umfjöllun fréttamanna jónvarpsins um málið.
Umfjöllun um þetta mál var að ýmsu leyti vandasöm, ekki síst vegna tímasetningarinnar, enda aðeins liðlega tvær vikur til alþingiskosninga. Auk þess var verið að fjalla um persónuleg málefni einstaklings sem var að nýta lögvarinn rétt sinn til að sækja um ríkisborgararétt. átti fréttamönnum vera sérstaklega ljóst mikilvægi þess að ekki væri farið með rangar eða misvísandi upplýsingar um málið.
Af fyrsta þætti þessarar umfjöllunar, 26. apríl, má greinilega sjá að ekki hefur verið aflað nægilegra upplýsinga til gefa rétta mynd af málinu. Fréttamaðurinn virðist ekki hafa kynnt sér hvernig með umsóknir um ríkisfang sé farið. Meginreglan er sú að dómsmálaráðherra hefur heimild að lögum til að veita íslenskan ríkisborgararétt að uppfylltum ákveðnum skilyrðum. Uppfylli umsækjandi ekki öll skilyrðin, getur hann sent umsókn sína til allsherjarnefndar sem afgreiðir slíkar umsóknir tvisvar á ári. Hvorki var gerður greinarmunur á þessum tveimur ólíku leiðum né aflað upplýsinga um það hversu seint umsóknir geti borist.
Upplýsingar um fjölda umsækjenda voru rangar á þessu stigi og auk þess var blandað saman umsóknum sem lagðar voru fram á haustþingi og vorþingi. Umfjöllunin gaf því til kynna að fleiri umsóknum hefði verið hafnað en raunin var.
Þá var orðalag mjög misvísandi varðandi umfjöllun Útlendingastofnunar um málið. Sagt var að hún hefði eindregið lagst gegn því að umræddur einstaklingur fengi ríkisborgararétt, þegar umsóknin fékk sömu afgreiðslu og aðrar umsóknir þar sem ekki voru uppfyllt öll þau skilyrði sem sett voru fyrir því að dómsmálaráðherra geti veitt ríkisborgararétt.
Í umfjölluninni kom fram að fá ef nokkur dæmi væru til um að fólk sem ekki hefði dvalið nema stuttan tíma á landinu fengi ríkisborgararétt. Fyrir því eru þó mörg fordæmi, samkvæmt upplýsingum sem síðar komu fram. Ekkert í gögnum málsins bendir til að kærandi hafi reynt að hafa áhrif á afgreiðslu allsherjarnefndar á umræddri umsókn.
Siðanefnd telur að þegar þessi atriði eru metin í heild hafi umfjöllunin verið röng og misvísandi og til þess fallin að gera kæranda tortryggilegan. Þetta á einkum við um upphaf umfjöllunarinnar, í pistli Helga eljan 26. apríl. Rangfærslurnar voru leiðréttar smám saman en lituðu engu að síður alla umfjöllunina. Fréttamaður lét undir höfuð leggjast að afla grundvallarupplýsinga í viðkvæmu máli. Þau vinnubrögð brjóta í bága við 3. gr. siðareglna Blaðamannafélags Íslands, en þar segir svo: Blaðamaður vandar upplýsingaöflun sína, úrvinnslu og framsetningu svo sem kostur er og sýnir fyllstu tillitssemi í vandasömum málum. Hann forðast allt sem valdið getur saklausu fólki, eða fólki sem á um sárt að binda, óþarfa sársauka eða vanvirðu."
Ríkisútvarpið og Helgi Seljan teljast hafa brotið 3. grein siðareglna. Brotið er alvarlegt.
Reykjavík, 15. júní 2007
Kristinn Hallgrímsson, Hjörtur Gíslason, Jóhannes Tómasson, Salvör Nordal, Sigurveig Jónsdóttir