Mál nr. 3 2008-2009

18.maí 2009
Kærendur: Jón Helgi Guðmundsson og Sigurður E. Ragnarsson
Kærðu: DV og Ingi F. Vilhjálmsson blaðamaður
Kæruefni: Umfjöllun um bjórsmygl

Kæran barst siðanefnd með bréfi dags. 27. febrúar 2009. Sjónarmið Inga F. Vilhjálmssonar og ritstjórnar DV komu fram í greinargerðum sem báðar voru dags. 17. mars 2009. Málið var tekið fyrir á fundum siðanefndar 31. mars, 27. apríl og 4. og 11. maí. Ingi F. Vilhjálmsson krafðist þess í bréfi dags. 13. apríl að formaður nefndarinnar, Kristinn Hallgrímsson, viki sæti við afgreiðslu málsins vegna tengsla við Jón Helga Guðmundsson. Ekki kom til þess að tekin væri afstaða til þeirrar kröfu þar sem Kristinn kom ekki að afgreiðslu málsins vegna anna.

Málavextir:

28. janúar 2009 birtist í DV frétt þar sem sagt var frá því að bjór hefði verið smyglað til landsins í gámum frá BYKO hf. Með tilvísun í fréttina var á forsíðu birt mynd af Jóni Helga Guðmundssyni stjórnarformanni BYKO hf. Málinu var fylgt eftir næstu daga, 29. og 30. janúar. Í fréttum þessum var m.a. fullyrt að fyrirtækið hefði mútað viðskiptavinum fyrirtækisins með smygluðum bjór.

Fyrir hönd Jóns Helga Guðmundssonar stjórnarformanns og Sigurðar E. Ragnarssonar forstjóra BYKO kærði Andri Árnason lögmaður umfjöllunina og forsíðutilvísanir í hana. Kærð var forsíðufyrirsögn DV 28. janúar: „BYKO mútaði pípurum með bjór" og meðfylgjandi myndbirting af Jóni Helga Guðmundssyni, umfjöllun í sama blaði undir fyrirsögninni „Viðskiptavinum BYKO mútað með smyglbjór", forsíðufyrirsögn DV 29. janúar: „Einn maður tekur á sig sök í BYKO", meðfylgjandi myndbirting og umfjöllun í sama blaði undir fyrirsögninni „Fullyrt að forstjóri hafi vitað af smygli".

Kærendur telja að alvarlega hafi verið brotið á sér með meiðandi umfjöllunum þar sem í þeim hafi falist alvarlegar aðdróttanir um refsiverða háttsemi kærenda og hafi þær verið til þess fallnar að valda þeim persónulega og eins fyrirtæki þeirra álitshnekki og þar með tjóni. Með umfjöllun sinni hafi blaðamaðurinn brotið siðareglur Blaðamannafélags Íslands, einkum 3. gr.

Kærendur segja málið hafa verið til rannsóknar hjá tollstjóraembættinu og þá beinst að starfsmanni fyrirtækisins en á engan hátt beinist rannsóknin að forsvarsmönnum BYKO né öðrum starfsmönnum fyrirtækisins. Í fréttum DV hafi hins vegar verið sagt þannig frá málinu að skilja mætti það svo að forsvarsmenn BYKO hafi í raun staðið á bak við hið meinta smygl. Þannig hafi verið fullyrt að BYKO hafi hagnast á smyglinu með því að múta viðskiptavinum með bjórnum. Það hafi verið alrangt og viðkomandi starfsmanni hafi verið sagt upp störfum þegar forsvarsmenn BYKO fengu grun um smyglið. Tenging forsvarsmanna BYKO við málið hafi því verið bæði röng og óviðeigandi.

Í greinargerðum DV til siðanefndar um málið, dags. 17. mars, kemur fram að forsíðutilvísanir hafi ekki verið á forræði blaðamannsins og því ekki á hans ábyrgð. Gunnar Ingi Jóhannsson lögmaður svarar þeim hluta kærunnar fyrir hönd ritstjóra DV, en Ingi F. Vilhjálmsson svarar öðrum kæruliðum, þ.e. þeim sem snúa að sjálfri umfjölluninni inni í blaðinu. Samkvæmt því fjallaði siðanefnd um málið í tvennu lagi.

I Forsíðutilvísanir

Í greinargerð ritstjórnar DV segir að ljóst sé að einhver starfsmaður BYKO hafi þurft að ferma bjórinn í gáma BYKO í Lettlandi og nokkra starfsmenn fyrirtækisins hafi þurft til að afferma gámana hér á landi. Skynsemisrök mæli gegn því að starfsmenn BYKO hafi ekki orðið varir við áfengið á lager BYKO og að iðnaðarmenn hafi reglulega gengið þaðan út með bjórkassa í fanginu. Heimildarmenn blaðsins hafi staðfest að miklu fleiri starfsmenn en yfirmaður lagnadeildarinnar hafi vitað af málinu. Þá sé vandséð af hvaða ástæðum og með hvaða hætti yfirmanni lagnadeildar BYKO hafi átt að vera það kleift að kaupa þúsundir kassa af bjór og afhenda viðskiptavinum BYKO án endurgjalds. „Af þessum sökum, meðal annars, fjallaði fréttin um það að BYKO hefði mútað iðnaðarmönnum með bjór, til að eiga viðskipti við félagið, enda virðist enginn annar hafa hagnast á viðskiptunum."

Varðandi fyrirsögnina „BYKO mútaði pípurum með bjór" bendir ritstjórn DV á að í blaðinu hafi birst viðtal við iðnaðarmann sem sagði frá því að BYKO hefði gefið sér bjór í skiptum fyrir viðskipti. Það hafi verið alþekkt meðal iðnaðarmanna. „Því er ljóst að fyrirsögnin um að BYKO hafi afhent iðnaðarmönnum bjór var á engan hátt villandi." Varðandi mynd þá sem birtist með forsíðutilvitnunum í málið segir að auk þess sem Jón Helgi Guðmundsson sé aðaleigandi og stjórnarformaður fyrirtækisins hafi myndin tengst undirfyrirsögn þar sem segir að eigandinn segist ekkert hafa vitað. „Vandséð er hvernig siðareglur blaðamanna banna það að birta mynd af manni sem tjáir sig við blaðið um það málefni sem til umfjöllunar er, einkum þegar ummæli viðkomandi birtast á forsíðu þess," segir í greinargerð ritstjórnar.

Fimmtudaginn 29. janúar var aftur vísað í frétt um málið á forsíðu og segir þar: „Einn maður tekur á sig sök í BYKO". Með þeirri tilvitnun var aftur birt mynd af Jóni Helga Guðmundssyni. Um þá forsíðu segir í greinargerð ritstjórnar DV m.a. að því verði ekki haldið fram með neinum skynsemisrökum að einungis einn starfsmaður BYKO hafi komið að málinu. Við hið ólöglega athæfi hafi verið notaðir gámar í eigu félagsins, áfengið hafi verið geymt í húsnæði BYKO og afhent viðskiptavinum þess án endurgjalds. Í fyrirsögn og greininni sjálfri sé vakin athygli á því að þrátt fyrir að heimildarmönnum beri saman um það að allir starfsmenn lagnadeildar BYKO, yfirmenn og fjöldi viðskiptamanna þess, hafi vitað af málinu, þurfi einn starfsmaður fyrirtækisins að sæta ábyrgð í málinu. Ritstjórnin færir sömu rök fyrir þessari myndbirtingu og hinni fyrri. Auk þess segir í greinargerðinni „ ... má vera alveg ljóst að myndbirting af Jóni Helga Guðmundssyni í tengslum við fréttaflutning af því stórhneyksli, að eitt stærsta byggingarvörufyrirtæki landsins skyldi stunda það að flytja inn og afhenda áfengi með ólögmætum hætti til viðskiptavina sinna, er fjarri því að teljast brot gegn siðareglum blaðamanna, einkum með vísan til þess að heimildarvinna var vönduð, sem og framsetning og úrvinnsla. ..."

II Innsíðufréttir

Í greinargerð sinni telur Ingi F. Vilhjálmsson blaðamaður að þau kæruefni sem sig snerti séu vanreifuð þar sem orðalagið, „umfjöllunin þar í heild", bendi til þess að verið sé að kæra allar þær fullyrðingar sem blaðamaður setji fram í fréttunum. Vegna þessa formgalla beri að vísa þeim frá.

Fyrirsögn fréttarinnar 28. janúar: „Viðskiptavinum BYKO mútað með smygl bjór" segir blaðamaðurinn að sé sönn, jafnvel þótt forsvarsmenn BYKO hafi ekki staðið að eða vitað af meintu smygli. Í fréttinni hafi ekkert það verið sem benti til að Jón Helgi Guðmundsson eða Sigurður E. Ragnarsson hafi vitað af bjórsmyglinu. Þvert á móti komi ítrekað fram í fréttinni að hvorki forstjóri né aðaleigandi BYKO hafi vitað af því. Meðal annars sé það haft eftir þeim fyrrverandi starfsmanni BYKO sem grunaður sé um smyglið að svo hafi ekki verið, þótt hann hafi sagt að aðrir forsvarsmenn í fyrirtækinu hafi vitað af smyglinu. Það sé þó engin mótsögn að segja að BYKO hafi hyglað viðskiptavinum sínum með bjórgjöfum á sama tíma og sagt sé að aðaleigandinn og forstjórinn liggi ekki undir grun í málinu. Sú fullyrðing sé byggð á orðum fleiri pípulagningarmanna en þess sem í sé vitnað í fréttinni.

Blaðamaðurinn segist hafa talið nægar sannanir fyrir hendi til að réttlæta fyrirsögnina: „Fullyrt að forstjóri hafi vitað af smygli". Fullyrðingin sé ekki blaðamannsins, heldur heimildarmanna. Eftir að fyrri fréttin birtist hafi nokkrir aðilar haft samband við blaðið og sagt að það væri rangt að Sigurður Ragnarsson hafi ekki vitað af smyglinu. Kærði segist í kjölfarið hafa haft samband við nokkra aðila sem tekið hafi í sama streng. Hafi hann gert ítrekaðar tilraunir til að ná í forstjórann en ekki tekist.

Óskað var leiðréttingar á fréttunum og 30. janúar birtist í DV frétt undir fyrirsögninni: „Forstjóri BYKO segir að fyrirtækið hafi ekki staðið fyrir því að viðskiptavinirnir fengu gefins bjór: „Skelfileg ógæfa eins manns".". Kærendur telja að leiðréttingin hafi að engu orðið með ítrekunum á fyrri fullyrðingum, svo sem að bjórinn hafi verið notaður til að hygla viðskiptavinum lagnadeildar fyrirtækisins svo þeir beindu viðskiptum sínum þangað. Blaðamaðurinn segir á hinn bóginn að fréttin hafi verið lesin fyrir Sigurð og lögmann hans. Eftir smávægilegar breytingar hafi hún verið samþykkt, að öðru leyti en því að Sigurður hafi ekki verið sáttur við fyrirsögnina „Skelfileg ógæfa eins manns".

Niðurstaða:

Í umræddum fréttum er óneitanlega lögð talsverð áhersla á að fjalla um forstjóra og þó sérstaklega um aðaleiganda og stjórnarformann BYKO, þrátt fyrir að talsmaður tollstjóraembættisins segi að þeir liggi ekki undir grun í málinu og sá sem grunaður sé um smyglið segi að þeir hafi ekki vitað um það. Það atriði er reyndar undirstrikað í fréttunum með tilvitunun í bæði forstjóra og stjórnarformann.

3. gr. siðareglna Blaðamannafélags Íslands kveður skýrt á um að blaðamaður skuli forðast allt það sem gæti valdið saklausu fólki, eða fólki sem eigi um sárt að binda óþarfa sársauka eða vanvirðu.

Í ljósi þess að meint smygl og dreifing þess virðist tengjast fyrirtækinu á margvíslegan hátt telur siðanefnd hins vegar að eðlilega veki það sérstaka athygli og skiljanlegt að umfjöllunin beinist að því atriði. Myndir af fyrirtækinu og þeim manni sem telst vera andlit þess eru hluti af slíkri umfjöllun. Í undirfyrirsögn á forsíðu 28. janúar er vitnað til þeirra orða Jóns Helga að hann hafi ekkert vitað um málið. Þar er því tilefni til myndbirtingar, þótt óþarft hafi verið að hafa myndina samsetta með mynd af bjórflöskum, enda gæti það misskilist. Hins vegar þykir siðanefnd það orka tvímælis að birta aftur mynd á forsíðu af Jóni Helga daginn eftir við hlið fyrirsagnarinnar „Einn maður tekur á sig sök í BYKO". Siðanefnd telur að tæpast hafi verið tilefni til þeirrar myndbirtingar.

Þá þykir siðanefnd á mörkunum að nota fyrirsögnina „Fullyrt að forstjóri hafi vitað af smygli". Þetta er alvarleg ásökun sem byggð er á ónafngreindum heimildarmanni. Þegar enginn nafngreindur viðmælandi er ábyrgur fyrir ummælum hlýtur blaðamaður og/eða ritstjóri að bera ábyrgð á þeim. Blaðamaðurinn segist hafa haft fleiri en einn heimildarmann fyrir innihaldi fyrirsagnarinnar, en engu að síður er þarna teflt á tæpasta vað.

Samkvæmt fréttum DV er sitthvað á reiki í málinu og því telur siðanefnd að í ofangreindum atriðum hefði að ósekju mátt fara varlegar varðandi framsetningu fréttanna en gert var. Þó telur siðanefnd ekki að um brot á siðareglum Blaðamannafélags Íslands hafi verið að ræða.

Úrskurður:

Ritstjórn DV og Ingi F. Vilhjálmsson teljast ekki hafa brotið siðareglur Blaðamannafélags Íslands.

Reykjavík, 11. maí 2009

Hjörtur Gíslason,Björn Vignir Sigurpálsson, Jóhannes Tómasson, Sigurveig Jónsdóttir, Valgerður Jóhannsdóttir