Samkomulag um hamfarapassa uppfært

Fjölmiðlar hafa mikilvægu hlutverki að gegna á hamfaratímum við upplýsingaöflun og miðlun upplýsinga. Blaðamannafélag Íslands og Lögreglustjórinn á Suðurnesjum hafa uppfært samkomulag sitt um bætt aðgengi fréttamiðla að hamfarasvæðum á Reykjanesskaga og tekur það gildi 1. febrúar 2025 og gildir til 31. desember 2025. BÍ sér um útgáfu passa til fréttamiðla og sjálfstætt starfandi blaðamanna ((blaðamenn, ljósmyndara og myndatökumenn) sem vinna við reglulega fréttaöflun fyrir fréttamiðla, innlenda sem erlenda.

Fulltrúar BÍ eru í reglubundnu samtali við fulltrúa Almannavarna og Lögregluembættisins á Suðurnesjum um hvernig megi best tryggja að blaðamenn geti sinnt hlutverki sínu á hamfaratímum. Nýtt samkomulag tekur mið af þessu. 

Samkvæmt nýju samkomulagi eru hamfarapassar nú einungis gefnir út í þrjá mánuði í senn til sjálfstætt starfandi og endurnýja þarf því umsóknina á þriggja mánaða fresti. Nauðsynlegt er að skila inn nýrri staðfestingu frá fréttamiðli með hverri umsókn.

Ath. að breyting hefur verið gerð á talhóp sem notaður er í samskiptum við blaðamenn en fjarskipti munu framvegis vera færð á talhópinn Gulur 2-5.
 
Hægt verður að nálgast hamfarapassa fyrir árið 2025 frá og með 27. janúar á skrifstofu BÍ við Síðumúla 23.