Agnar Bogason(1921-1983)

Agnar fæddist í Reykjavík 10. ágúst. Foreldrar hans voru Bogi Ólafsson menntaskólakennari og Gunnhildur Jónsdóttir.
Agnar ólst upp í miðbæ Reykjavíkur og varð stúdent frá MR 1940. Eftir stúdentsprófið sigldi hann til Bandaríkjanna og hóf undirbúningsnám í tannlækningum við Southern Methodist University í Dallas, Texas. Hann flutti sig þó fljótlega yfir til Houston og síðar Chicago og nam fjölmiðlun og stjórnmálafræði. Hann er sagður fyrstur Íslendinga til að ljúka prófi í fjölmiðlafræðum árið 1946.
Eftir heimkomuna vann hann um tíma sem enskukennari við MR og stundaði samhliða því blaðamennsku á Morgunblaðinu um tíma. Hann stofnaði Mánudagsblaðið 1947, sem var hið fyrsta sinnar tegundar á Íslandi, æsifréttablað í anda hinnar svokölluðu „gulu pressu“. Agnar ritstýrði blaðinu og gaf það út á meðan honum entust kraftar, en upp úr 1980 hætti útgáfan. Hann var í hópi þeirra leikdómara Reykjavíkurblaðanna sem 28. mars 1954 stofnuðu með sér félag. Agnar skrifaði leikdóma í blað sitt í rúma þrjá áratugi og lengur en nokkur annar íslenskur leikdómari. Félag leikdómara úthlutaði Silfurlampanum sem var veittur lengst af fyrir það sem dómarar töldu besta leikafrek ársins og má kalla undanfara Grímunnar.

 

http://timarit.is/view_page_init.jsp?issId=119338&pageId=1581167&lang=is&q=Agnar%20Bogason

http://timarit.is/view_page_init.jsp?pubId=313