Benedikt Gröndal(1924-2010)

Benedikt fæddist á Hvilft í Önundarfirði 7. júlí. Foreldrar Benedikts voru Sigurður Gröndal, rithöfundur og yfirkennari í Reykjavík, og Mikkelína María Sveinsdóttir. Var Benedikt elstur sjö systkina, en yngstur var Gylfi, blaðamaður, ritstjóri og rithöfundur. Benedikt lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum í Reykjavík árið 1943 og BA-prófi með sögu sem aðalgrein frá Harvard-háskóla í Bandaríkjunum árið 1946. Þá stundaði hann framhaldsnám í Oxford í Englandi sumarið 1947. Samhliða  námi starfaði Benedikt sem íþróttafréttaritari Alþýðublaðsins og varð síðar fréttastjóri á blaðinu. Hann settist í ritstjórastólinn árið 1956 og stýrði blaðinu í tíu ár. Framan af blaðamennskuferli sínum var Benedikt talsvert virkur í starfi Blaðamannafélags Íslands. Þá starfaði Benedikt einnig sem forstöðumaður fræðsludeildar Sambands íslenskra samvinnufélaga. Hann sat í bæjarráði Reykjavíkur um fjögurra ára skeið og tók að sér stjórnar- og nefndarsetu á ýmsum sviðum. Hann sat í útvarpsráði um árabil og var einn af brautryðjendum íslensks sjónvarps. Hann var kjörinn þingmaður árið 1956 og varð síðar formaður Alþýðuflokksins. Árið 1978 varð hann utanríkisráðherra og síðar gegndi hann embætti forsætis- og utanríkisráðherra til ársins 1980, en hann var forsætisráðherra í 116 daga í minnihlutastjórn Alþýðuflokksins sem var varin vantrausti af þingflokki Sjálfstæðisflokks. Seinna varð hann sendiherra í Svíþjóð, í Austurlöndum og síðast hjá Sameinuðu þjóðunum í New York. „Nýgræðingi í blaðamennsku, sem kom til starfa á Alþýðublaðinu snemma vors 1962, var ekki í kot vísað. Þar var öflugt fréttalið undir stjórn Gísla J. Ástþórssonar og Björns Jóhannssonar og Benedikt Gröndal, þingmaður og ritstjórinn, sá um pólitíkina. Hann var jafnframt einn af snjöllustu blaðamönnum landsins. Á þessum árum var Alþýðublaðið eldisstöð fyrir aðra fjölmiðla. Slitróttar launagreiðslur hröktu menn þaðan til annarra starfa,“ skrifar Eiður S. Guðnason í minningarorðum um Benedikt og bætir við: „Þannig æxlaðist, að sá sem þetta ritar fór fljótlega að sjá um þingfréttir og þá varð samstarf okkar Benedikts bæði náið og gott. Benedikt hafði verið tengdur Alþýðublaðinu frá unglingsárum, er hann skrifaði íþróttafréttir, seinna blaðamaður, fréttastjóri og ritstjóri. Hann var fjölhæfur fjölmiðlamaður og rithöfundur. Bækur hans um utanríkismál, Stormar og stríð og Örlög Íslands, voru brautryðjendaverk. Hann skrifaði fleiri bækur og að auki smárit, Alþingi að tjaldabaki (1981), sem er firnagóð lýsing á störfum þings og þingmanna. Í minningasjóði Alþýðublaðsára geymist sú mynd, að Benedikt kom jafnan niður á blað á kvöldin og las próförk að leiðara næsta dags. Vandvirkur var hann og samviskusamur. Hann leiðbeindi byrjanda við leiðaraskrif, strikaði út og bætti um betur. Seinna sá ég að líklega hefði hann í Harvard-námi sínu kynnst Biblíu stílista sem oft er kölluð „litla bókin“ (The Elements of Style). Honum var lagið að skrifa mannamál, útlista flókin efni með einföldum hætti. Á sjöunda áratugnum skrifaði Benedikt fjölmarga leiðara í Alþýðublaðið um náttúruvernd, sem var honum hjartans mál. Það voru ekki margir á þeim árum, sem höfðu skilning á því sem nú er á allra vörum. Þessir leiðarar eru heimild um framsýni hans og pólitíska víðsýni.“