Bjarni Benediktsson frá Hofteigi (1922-1968)

Í blaðamannatalsdrögum þeim sem byrjað hafði verið að taka saman á sjötta ártugnum kemur fram að Bjarni fæddist 25. apríl 1922. Hann nefnir ekki fæðingarstað, en annarstaðar má lesa að hann hafi fæðst á Egilsstöðum. Hann er stúdent og með þriggja missera nám frá Uppsalaháskóla að baki. Blaðamennsku hefur hann haft að aðalstarfi frá 30. nóvember 1951, en hafði áður starfað við Landnemann og Vinnuna og verkalýðinn, hálft ár á hvoru blaði. Hann er á Þjóðviljanum þegar hann sækir um inngöngu í Blaðamannafélag Íslands, 28. maí 1953. Meðmælendur hans eru Jón Bjarnason og Sigurður Guðmundsson, báðir á Þjóðviljanum. Um helstu æviatriði segir Bjarni, sem jafnan var kenndur við Hofteig í Jökuldal: „Alinn upp í sveit við venjuleg sveitastörf, var í Menntaskólanum á Akureyri 1939-1944 og í háskóla eins og segir hinumegin á blaðinu (forsíðu umsóknareyðublaðsins). Stundaði síðustu árin þýðingar og önnur ritstörf, skrifaði að staðaldri um bækur í Þjóðviljann frá 1948. Verið starfandi í Sósíalistaflokknum og Æskulýðsfylkingunni um allmargra ára skeið.“

Í minningargrein í Frjálsri þjóð minnist Gils Guðmundsson þess er Bjarni kom heim frá námi í Svíþjóð og gerðist blaðamaður og ritdómari við Þjóðviljann: „Brátt vöktu hinir snörpu og oft harðskeyttu ritdómar hans mikla athygli; slíkt hið sama greinar og ritgerðir um þjóðfélagsmál. Á nokkrum fjöldafundum, þar sem frelsi Íslands og framtíð var á dagskrá, hélt Bjarni snilldarlega samdar ræður, hvassar, heitar, magnþrungnar.“ Gils segir að árið 1957 hafi Bjarni að mestu horfið frá blaðamennsku og snúið sér að margvíslegum öðrum ritstörfum. Bjarni var aðeins 46 ára að aldri er hann lést eftir langvarandi veikindi. „Með honum hneig í valinn einhver ritsnjallasti Íslendingur sinnar kynslóðar,“ segir Gils Guðmundsson. „Við sem þekktum hann vitum einnig að þar kvaddi fágætlega hjartaprúður drengur.“ Bjarni frá Hofteigi var tengdasonur Sigfúsar Sigurhjartarsonar, alþingismanns og ritstjóra Þjóðviljans til margra ára og afi Jóhanns Bjarna Kolbeinssonar, blaða- og fréttamanns..

http://timarit.is/files/11320462.pdf#navpanes=1&view=FitH

http://timarit.is/view_page_init.jsp?pageId=2881644

http://timarit.is/view_page_init.jsp?pageId=2829375