Björn Jóhannsson (1935-2003)

Björn fæddist í Hafnarfirði 20. Apríl 1935. Foreldrar hans voru hjónin Jóhann Kristinn Björnsson, iðnverkamaður, og Kristrún Marta Kristjánsdóttir. Björn lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum á Akureyri árið 1956. Hann stundaði nám í heimspeki við Háskóla Íslands og nám í ensku, sagnfræði og heimspeki við háskólann í Edinborg á árunum 1957 og 1958. Björn varð framkvæmdastjóri Alþýðublaðsins árið 1958 og var blaðamaður á Alþýðublaðinu frá 1958-1962. Hann var ritstjóri dagblaðsins Myndar á árinu 1962 og hóf sama ár störf á Morgunblaðinu, þar sem hann starfaði æ síðan. Björn var blaðamaður á Morgunblaðinu á árunum 1962-1967 er hann tók við starfi fréttastjóra blaðsins og var fréttastjóri til ársins 1981 er hann varð fulltrúi ritstjóra Morgunblaðsins. Því starfi gegndi hann til dauðadags. Björn var um árabil ritstjóri hins íslenska hluta Nordisk Kontakt, rits Norðurlandaráðs um stjórnmál, þingmál og norræn málefni,  og ritstjóri íslenska kaflans í Árbók Bókaútgáfunnar Þjóðsögu frá 1966. Hann var fréttaritari fyrir fréttastofuna Associated Press frá 1964-1982 og fréttaritari dagblaðsins Politiken í Kaupmannahöfn frá 1966-1975 og einnig dagblaðsins Helsingin Sanomat í Finnlandi og Dimmalætting í Færeyjum um hríð. Björn skrifaði greinar fyrir blöð og tímarit í ýmsum löndum, t.d. Nordisk Tidskrift og nú síðast fyrir tímarit norrænu félaganna í Finnlandi. Hann var einnig einn af umsjónarmönnum þáttarins Efst á baugi í Ríkisútvarpinu á árunum 1961-1970. Björn sat í Íslenskri málnefnd. Hann átti sæti í stjórn Blaðamannafélags Íslands á árunum 1960-1963. Seinni eiginkona Björns var Guðrún Egilsson, sem var um árabil blaðamaður á Tímanum og Þjóðviljanum.