Björn Jónsson (1846-1912)

Björn fæddist í Djúpadal í Barðastrandarsýslu. Hann lauk stúdentsprófi frá Lærða skólanum og stundaði nám í lögfræði við Kaupmannahafnarháskóla. Hann hætti námi til að gerast ritstjóri á Íslandi. Hann stofnaði og varð ritstjóri blaðsins Ísafoldar frá 1874-1909, er hann varð ráðherra Íslands árin 1909-1911. Björn var atkvæðamestur útgefenda landsins á sínum tíma, rak bæði Ísafoldarprentsmiðju og bókaútgáfu Ísafoldar auk blaðaútgáfunnar.

Björn sat í bæjarstjórn Reykjavíkur um skeið „en undi sér þar illa. Svipað mun hafa verið um þingsetu hans 1879, að hann beitt sér þar ekki mikið“, segir Vilhjálmur Þ. Gíslason í riti sínu Blöð og blaðamenn 1733-1944. „Þó að hann væri snjall ræðumaður, einkum á tækifærisræður, rómþungur og raddskýr, þá var hann fyrst og fremst maður hins ritaða orðs, stíll hans kjarnmikill og formfastur, málið hreint og vandað, oft myndríkt og stundum nokkuð skrúðmælt og virðulegt, en í deilum gat hann orðið illorður og óvæginn.“ 

Björn beitti sér fyrir blaðamannastafsetningunni svonefndu, fyrstu samræmdu stafsetningunni sem miklar deilur urðu um, og gaf út stafsetningarorðabækur. Við hann er kenndur Móðurmálssjóður Björns Jónssonar.

Í fjölmiðlasögunni Nýjustu fréttir! er haft eftir Skúla Thoroddsen, ritstjóra Þjóðviljans, í eftirmælum um Björn: „Sem blaðamaður var Björn sálugi lang öflugasti blaðamaðurinn hér á landi og einatt mjög atkvæðamikill, enda Ísafold um sum skeið það blaðið sem mest hafði áhrifin hér á landi.“

Björn lét reisa Sóleyjargötu 1 árið 1912, steinhús sem Rögnvaldur Ólafsson húsameistari teiknaði, og bjó Björn þar með fjölskyldu sinni þann skamma tíma sem hann átti þá ólifað. Húsið nefndi hann Staðarstað, en kona hans var frá á Staðarstað á Snæfellsnesi. Um skeið bjó Sveinn, sonur Björns og fyrsti forseti Íslands, í húsinu. Þar eru nú skrifstofur forseta Íslands.

http://is.wikipedia.org/wiki/Bj%C3%B6rn_J%C3%B3nsson

http://www.althingi.is/altext/thingm/0810460008.html