Björn Vignir Sigurpálsson (1946 -)

Björn Vignir er fæddur í Reykjavík 19. janúar, sonur hjónanna Steinunnar Steindórsdóttur tónlistarkennara og Sigurpáls Jónssonar bókara. Hann hóf nám við Menntaskólanum í Reykjavík en hætti til að sinna blaðamennsku. Starfaði hann fyrst sem lausamaður á Vikunni, en var síðan hjá Morgunblaðinu í starfsnámi árið 1964. Ílentist á blaðinu sem innlendur fréttamaður en var einnig kvikmyndagagnrýnandi blaðsins um skeið.

 

Björn Vignir stofnaði ásamt Árna Þórarinssyni, Vilmundi Gylfasyni og fleirum vikublaðið Helgarpóstinn 1979. Það þótti marka nokkur tímamót með öðru vísi blaðamennsku og áherslum – einatt kennt við rannsóknarblaðamennsku. Einnig átti hann þátt í stofnun fyrirtækisins Framsýn/Ísmynd og gerði þar fjölda fræðslu, heimildarmynda og kynningarmynda, Fyrirtækið rann síðar inn í kvikmyndafyrirtækið Ísfilm.

 

Björn Vignir réðst til Morgunblaðsins að nýju áramótin 1984-5 til að setja á laggirnar viðskiptafréttaumfjöllun með reglulegum hætti. Hann varð síðan ritstjórnarfulltrúi en ritstýrði áfram viðskiptafréttum ásamt því að hafa umsjón með Sunnudagblaði Morgunblaðsins. Varð fréttaritstjóri Morgunblaðsins upp úr síðustu aldamótum, og gegndi því starfi í tæpan áratug eða þar hann óskaði að láta af því starfi og fara aftur til starfa á gólfinu sem óbreyttur blaðamaður.

 

Eftir að hann komst á eftirlaun hefur Björn Vignir unnið að því að finna til söguleg gögn sem varða Blaðamannafélag Íslands auk þess að vera formaður Siðanefndar BÍ og formaður dómnefndar BÍ um val blaðamannaverðlauna. Dóttir Björns er Sigríður Hagalín fréttamaður á RÚV en föðurbróðir hans er Ívar H. Jónsson, fyrrverandi ritstjóri Þjóðviljans. Björn er einn þeirra blaðamanna sem rætt er við í bókinni Í hörðum slag - Íslenskir blaðamenn II.

 

 

https://hbs.is/SkodaBok/24644