Emil Björnsson (1915-1991)

Emil fæddist 21. september á Felli í Breiðdal, S-Múlasýslu. Foreldrar hans voru Árni Björn Guðmundsson, bóndi þar, og eiginkona hans Guðlaug H. Þorgrímsdóttir, ljósmóðir. Emil lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum á Akureyri 1939. Hann stundaði nám í viðskiptadeild Háskóla Íslands 1939-1941, en lauk guðfræðiprófi við skólann 1946. Hann dvaldist í Finnlandi við nám sumarið 1953 og við nám og störf í London og Canterbury 1960-1961. Hann fór í námsdvöl hjá sjónvarpsstöðvum í Bandaríkjunum 1965. Emil var ræðuskrifari á Alþingi 1941-1950, fréttamaður hjá Ríkisútvarpinu 1944-1965 og jafnframt oft settur fréttastjóri og fastur staðgengill fréttastjóra síðustu árin og vann að undirbúningi sjónvarps fyrsta árið þar. Hann var dagskrárstjóri frétta- og fræðsludeildar Sjónvarpsins frá upphafi þess 1965-1985, er hann lét af störfum fyrir aldurs sakir. Emil var prestur Óháða safnaðarins í 34 ár, eða allt frá stofnun safnaðarins árið 1950. Hann var formaður Blaðamannafélags Íslands 1965-1966. Ýmis rit liggja eftir Emil, en eftir að hann hætti störfum hjá Sjónvarpinu ritaði hann meðal annars sögu Óháða safnaðarins og eigin æviminningar.

„Séra Emil Björnsson var stjörnublaðamaður Vísis. Var mikill skúbbari og hafði ríkar tilfinningar til vinnunnar. Kallaði og hrópaði, þegar vel gekk að draga inn fréttanetið. Einu sinni gladdist hann svo við árangur í einu símtali, að hann fór á handahlaupum um ritstjórnarganginn og stakk sér kollhnísa með siguröskrum. Var hann þó þungavigtarmaður í bókstaflegum skilningi. Hann var þá í hálfu starfi sem blaðamaður og hálfu sem prestur Óháða safnaðarins í Reykjavík. Skömmu síðar var Ríkissjónvarpið stofnað og séra Emil varð þar fréttastjóri. Þar var réttur maður á réttum stað,“ segir Jónas Kristjánsson, fyrrverandi ritstjóri, í minningum sínum á jonas.is, en hann var þá fréttastjóri Vísis.

http://timarit.is/view_page_init.jsp?issId=124115&pageId=1747410&lang=is&q=Emil%20Bj%F6rnsson%20Emil%20Bj%F6rnsson