Gestur Guðfinnsson (1910-1984 )

Gestur Guðfinnsson fæddist í Litla-Galtardal á Fellsströnd í Dalasýslu 24. september. Hann var sonur Guðfinns Jóns Björnssonar, bónda í Litla-Galtardal og síðar á Ormsstöðum, og k.h., Sigurbjargar Guðbrandsdóttur. Gestur var ókvæntur og barnlaus en meðal fjölda systkina hans var Björn, íslenskuprófessor við HÍ, faðir Fríðu blaðamanns og fyrrv. framkvæmdastjóra Blaðamannafélags Íslands um langt árabil.

Gestur var bóndi í Litla-Galtardal og síðar á Ormsstöðum 1933-1943 og gegndi þá fjölda trúnaðarstarfa fyrir sína sveit, var m.a. oddviti hreppsnefndar og formaður ungmennafélagsins Vonar. Gestur fluttist til Reykjavíkur á stríðsárunum, varð fyrst afgreiðslustjóri Alþýðublaðsins frá 1945, síðan prófarkalesari þar en loks og lengst af blaðamaður Alþýðublaðsins, segir í dálkinum Merkir Íslendingar í Morgunblaðinu hinn 24. september 2012. Gestur lét mjög til sín taka innan Ferðafélags Íslands, og skrifaði mikið um eftirtektarverða staði og örnefni.

Gestur þótti prýðilega skáldmæltur. Hann sendi frá sér allnokkrar ljóðabækur en auk þess orti hann í um tíu ára skeið í Alþýðublaðinu undir dulnefninu Lómur. Þekktasta kvæði hans er án efa Í grænum mó við vinsælt lag Sigfúsar Halldórssonar.

 

http://www.ferlir.is/?id=18270

https://www.youtube.com/watch?v=M8E842JyJyY