Gísli J. Ástþórsson(1923-2011)

Gísli fæddist í Vestmannaeyjum. Foreldrar hans voru Sísí Matthíasson og Ástþór Matthíasson, lögfræðingur. Gísli tók gagnfræðapróf 1939 og stundaði eftir það nám í Menntaskólanum í Reykjavík. Hann lauk prófi í blaðamennsku frá háskólanum í N-Karólínu í Bandaríkjunum árið 1945. Gísli var blaðamaður á Morgunblaðinu frá 1946-1951, en síðan ritstjóri Vikunnar í fimm ár, til 1958. Þá tók hann við ritstjórn Alþýðublaðsins og gegndi því starfi til 1963. Gísli var síðan dagskrárfulltrúi á Ríkisútvarpinu í tvö ár en sneri sér að kennslu eftir það, allt til 1973 að hann réðst aftur til Morgunblaðsins þar sem hann starfaði þangað til hann fór á eftirlaun. Jafnframt blaðamennskunni lagði Gísli fyrir sig skop- og ádeiluteikningar í blöðum þeim sem hann starfaði hjá og hélt því reyndar áfram eftir starfslok á Morgunblaðinu og þá fyrir DV. Um Gísla segir m.a. í fjölmiðlasögunni Nýjustu fréttum!: „Endurreisn og sókn Alþýðublaðsins hófst fyrir alvöru er Gísli J. Ástþórsson var ráðinn ritstjóri 1. september 1958, en fyrir var Helgi Sæmundsson á ritstjórastóli. Gísli setti þau skilyrði er hann var ráðinn ritstjóri Alþýðublaðsins, að hann fengi frjálsar hendur, en hann var óflokksbundinn og vildi stunda „harða“ og óháða fréttamennsku eins og hún gerðist erlendis,“ segir í fjölmiðlasögunni áðurnefndu. „Bylting hans var fólgin í tvennu. Honum tókst annars vegar að brjótast út úr hinni pólitísku herkví í fréttaflutningi og hins vegar gjörbreytti hann útliti Alþýðublaðsins þannig að það líktist ensku „tabloid“-blöðunum, svo sem „Daily Mirror.“

Gísli var einn þeirra blaðamanna sem rætt var við á 110 ára afmæli Blaðamannafélags Íslands í bókinni Íslenskir blaðamenn árið 2007 og var hann þá handhafi blaðamannaskírteinis nr. 10.

http://timarit.is/view_page_init.jsp?issId=126067&pageId=1798545&lang=is&q=G%EDsli%20G%EDsli%20J

http://timarit.is/files/14070703.pdf#navpanes=1&view=FitH&search=%22G%C3%ADsli%20J%20%C3%81st%C3%BE%C3%B3rsson%22