Guðni Guðmundsson (1925-2004)

Í drögum þeim að blaðamannatali sem verið var að taka saman á sjötta áratugnum en aldrei var lokið, er að finna umsóknareyðublað um upptöku í Blaðamannafélag Íslands með nafni Guðna Guðmundssonar og Alþýðublaðsins svo og mynd (meðfylgjandi) af honum. Engar frekari upplýsingar hafa hins vegar verið færðar á eyðublaðið, en ljóst að gert hefur verið ráð fyrir Guðna í blaðamannatalinu. Guðni fæddist 14. febrúar í Reykjavík. Foreldrar hans voru Nikólína Hildur Sigurðardóttir húsmóðir og Guðmundur Helgi Guðnason gullsmiður. Hann varð stúdent frá Menntaskólanum á Akureyri árið 1944, lauk prófi í forspjallsvísindum frá Háskóla Íslands 1945 og MA-prófi í ensku og frönsku frá Háskólanum í Edinborg árið 1951. Ennfremur lauk hann námskeiðum við Sorbonne-háskóla í París og prófi í uppeldis- og kennslufræði frá Háskóla Íslands. Guðni hóf störf sem stundakennari við MR árið 1951 og var blaðamaður við Alþýðublaðið með breytilegu starfshlutfalli á árunum frá 1952-1968, auk þess að vera á þeim tíma íhlaupafréttaritari bresku fjölmiðlanna BBC og The Times. Hann var skipaður kennari við Menntaskólann í Reykjavík árið 1956 og síðan rektor skólans frá 1970-1995. Hann sat í nefnd er samdi fyrstu siðareglur Blaðamannafélags Íslands og sat í útvarpsráði um árabil.