Haukur Eiríksson (1930-1963)

Haukur fæddist 30. ágúst 1930 á Ási í Þelamörk, sonur hjónanna Eiríks Stefánssonar kennara og Laufeyjar Sigrúnar Haraldsdóttur Hann fluttist með foreldrum sínum til Akureyrar 1943, lauk stúdentsprófi frá MA 1950, stundaði síðan nám við norrænudeild Háskóla Íslands. Haukur starfaði svo á Akureyri til ársins 1956 að hann réðst til Morgunblaðsins. Hann starfaði fyrst sem prófarkalesari, en síðar blaðamaður, og þá við erlendar fréttir og greinaskrif. Síðustu árin fyrir andlát sitt var hann einn af starfsmönnum við Lesbók Morgunblaðsins. Blaðið minnist hans m.a með þessum orðum: „Haukur Eiríksson var góður verkmaður og fáum var betur treystandi til að yrkja akur íslenzkrar tungu í erilsömu starfi, þar sem sjaldnast er unnt að liggja yfir því sem skrifað er, slípa og fegra. Hann hafði í vöggugjöf fengið gott tungutak og næman smekk, sem kom honum að góðu haldi í blaðamannsstarfinu. Sem prófarkalesari var hann öruggur en kröfuharður, bæði við sjálfan sig og aðra. Hann kostaði jafnan kapps um að halda velli í erfiðu kapphlaupi við misjafnar aðstæður og nauman tíma.“