Haukur Hauksson (1938-1971)

Haukur fæddist á Akureyri 15. ágúst, sonur hjónanna Else Snorrason og Hauks Snorrasonar ritstjóra. Hann varð stúdent frá Menntaskólanum í Reykjavík 1958, en stundaði síðan framhaldsnám í blaðamennsku við Wisconsin-háskóla og Norræna blaðamannaskólann í Árósum. Á félagaskrá Blaðamannafélagsins frá því 14. febrúar 1960 er Haukur á aukafélagaskrá, en hann hóf störf sem blaðamaður hjá Tímanum áður en hann réðst til Morgunblaðsins 1961. Jónas Kristjánsson segir frá Hauki í minningum sínum á jonas.is þegar hann kom til starfa á Tímanum: „Fyrst var ég lögreglufréttaritari. Haukur Hauksson blaðamaður arfleiddi mig að því hlutverki og setti mig vel inn í það. Hann fór með mig í hringferð milli deildarstjóra í löggunni og kynnti mig fyrir þeim.“    Í frétt Morgunblaðsins um óvænt andlát Hauks aðeins 32 ára að aldri segir: „Fyrr á árum annaðist Haukur ýmis blaðamennskustörf, en lagði þá áherzlu á innlendar fréttir. Fór hann þá á marga erfiða blaðamannafundi, þar sem erlendir áhrifamenn skýrðu sjónarmið sín, og var hann frábær fréttamaður í slíkum störfum. Síðustu árin skrifaði Haukur einkum erlendar greinar og fréttir í Morgunblaðið, og var hann óvenju afkastamikill og fær blaðamaður. Hann var mjög góður enskumaður og ritaði gott íslenzkt mál.“ Vegna hins syndilega fráfalls Hauks Haukssonar úr hjartaáfalli beitti Blaðamannafélag Íslands sér fyrir söfnun til kaupa á sérútbúnum neyðarbílum, svokölluðum hjartabílum, til að sinna slíkum bráðatilfellum bæði á höfuðborgarsvæðinu og Akureyri, og gaf Rauða krossi Íslands.