Haukur Helgason (1936–1996 )

Haukur Helgason fæddist á Akureyri 1. desember. Foreldrar hans voru Helgi Sveinsson, prestur í Hveragerði, og Katrín Magnea Guðmundsdóttir. Haukur lauk stúdentsprófi frá MR árið 1955 og prófi í viðskiptafræði frá Háskóla Íslands árið 1960. Hann stundaði framhaldsnám í hagfræði við Hamborgarháskóla frá 1960 til 1962 og lauk MA-gráðu í sömu grein frá Chicago-háskóla árið 1967.

Haukur starfaði í hagfræðideild Seðlabanka Íslands 1965 til 1967. Hann var ritstjóri tímaritsins Úrvals 1973 til 1974, blaðamaður á Vísi 1968 til 1974 og ritstjórnarfulltrúi árin 1974 til 1975. Haukur var einn af stofnendum Dagblaðsins 1975, aðstoðarritstjóri þess og síðar Dagblaðsins Vísis (DV) frá árinu 1975 og gegndi því starfi þar til hann varð ritstjóri Úrvals á nýjan leik skömmu fyrir andlát sitt.

 Jónas Kristjánsson, ritstjóri hans á þessum árum, lýsir honum þannig í minningum sínum á jonas.is:

 Haukur Helgason var einstæður snillingur, viðskipta- og hagfræðingur, sem ekki blómstraði við blýantsnag í opinberum stofnunum. Hann kom af tilviljun til okkar og varð strax að hornsteini blaðsins. Varð fyrstur blaðamanna til að skrifa þéttar og óháðar fréttir af pólitík og efnahagsmálum. Öll vinna var honum undravert létt í hendi. Tvö símtöl plús kortér og uppsláttur dagsins var kominn. Um allan bæ tóku valdamenn mark á honum. Hann gaf líka góða nærveru á ritstjórn, var hinn ljúfasti við alla. Hann átti eftir að verða aðstoðarritstjóri minn og hægri hönd mín um nokkra áratugi.

 

http://timarit.is/view_page_init.jsp?issId=128694&pageId=1859393&lang=is&q=HAUKUR%20HELGASON%20Haukur