Helgi Sæmundsson (1920-2004)

Helgi fæddist í Baldurshaga á Stokkseyri 17. júlí. Foreldrar hans voru hjónin Ástríður Helgadóttir húsmóðir og Sæmundur Benediktsson sjómaður. Helgi fluttist með foreldrum sínum til Vestmannaeyja á unglingsárum og stundaði nám við Gagnfræðaskólann í Vestmannaeyjum 1936-1939. Hann lauk prófi frá Samvinnuskólanum í Reykjavík 1940. Helgi varð blaðamaður við Alþýðublaðið 1943-1952 og  ritstjóri Alþýðublaðsins 1952-1959. Hann varð síðan starfsmaður Bókaútgáfu Menningarsjóðs 1959-1990 og ritstjóri tímaritsins Andvara 1960-1972. Hann starfaði talsvert innan Blaðamannafélags Íslands á sínum tíma. Hann hlaut Móðurmálsverðlaun Björns Jónssonar 1956. Helgi sat í menntamálaráði 1956-1971, var formaður ráðsins 1956-1967 og varaformaður 1967-1971. Þá átti hann sæti í úthlutunarnefnd listamannalauna 1952-1978 og oft formaður. Fulltrúi Íslands í dómnefnd um bókmenntaverðlaun Norðurlandaráðs 1961-1972. Eftir Helga liggja sjö ljóðabækur og allmörg önnur ritverk og þýðingar. Sonur Helga er Helgi E. Helgason fyrrum fréttamaður hjá Ríkisútvarpinu.