Ingibjörg Jónsson(1896–1975)

Ingibjörg eða Ingibjörg Margrét, eins og hún hét fullu nafni, fæddist á Mikley á Winnipegvatni 1. febrúar, dóttir Vilhjálms Sigurgeirssonar, bónda og útgerðarmanns þar á eynni, og konu hans, Kristínar Þóru Helgadóttur.

Ingibjörg lauk kennaraprófi 1921. Hún kenndi í barnaskólum og miðskólum bæði í Manitoba og Saskatchewan á árabilinu 1921–1938, en dvaldist á Íslandi 1935–1936 og kenndi þann vetur við Samvinnuskólann í Reykjavík. Sumarið 1938 giftist hún Einari Páli Jónssyni, skáldi og ritstjóra, er flust hafði vestur um haf 1913, en varð ári síðar aðstoðarritstjóri Lögbergs og aðalritstjóri 1926.

Árið sem þau giftust gerðist Ingibjörg kennari við Laugardagsskóla Þjóðræknisfélagsins í Winnipeg og gegndi því starfi til 1952, þar af tólf ár sem skólastjóri. Hún átti jafnframt sæti í stjórn Þjóðræknisfélagsins um árabil. Ingibjörg fór brátt að vinna að blaðinu með Einari manni sínum og varð hún 1944 ritstjóri kvennasíðu Lögbergs. Kom þá í ljós, „að hún var hið bezta ritfær á íslenzka tungu og í rauninni fæddur blaðamaður,“ segir Finnbogi Guðmundsson, fyrrverandi Landsbókavörður, í minningargrein um Ingibjörgu.

Ingibjörg varð aðstoðarritstjóri 1956, og við sameiningu vikublaðanna íslensku í Winnipeg 1959 varð hún ritstjóri hins nýja blaðs, Lögbergs-Heimskringlu. Ingibjörg var komin á áttræðisaldur þegar hún lét af ritstjórn Lögbergs-Heimskringlu eftir 15 ára starf. Var hún þá gerð að heiðursritstjóra, en Finnbogi Guðmundsson segir að annar heiður, sem henni veittist og hún mat mjög mikils, hafi verið, að hún var gerð heiðursfélagi í Blaðamannafélagi Íslands.

 

https://timarit.is/files/16685696