Jakob Möller(1880-1955)

Jakob fæddist á Stóra-Bergi á Hólanesi við Skagaströnd. Hann lauk stúdentsprófi árið 1902. Árið eftir lauk hann heimspekiprófi í Kaupmannahöfn og stundaði jafnframt verkfræðinám við háskólann þar til ársins 1905. Sneri hann þá heim og stundaði hér læknanám á árunum 1906-1909. Hvarf hann frá því námi og gerðist bankaritari í Landsbanka Íslands og vann þar í fimm ár. Árið 1915 keypti hann dagblaðið Vísi og gerðist ritstjóri þess til ársins 1924.

Jakob var kjörinn á þing 1919 og átti sæti á þingi til 1927, en síðan aftur frá 1931-1945. Þá átti hann sæti í bæjarstjórn Reykjavíkur í 16 ár, eða frá 1930-1945. Hann var fjármálaráðherra frá 1939-1942 og aftur í fyrsta ráðuneyti Ólafs Thors sem starfaði þar á eftir næstu sjö mánuði, en þar fór Jakob með ráðuneyti fjármála og dómsmála. Hann varð sendiherra Íslands í Danmörku þegar hann lét af þingmennsku 1945 og gegndi því starfi í fimm ár, eða þar til hann sjötugur settist í helgan stein. Kristján Guðlaugsson, eftirmaður hans í ritstjórastóli á Vísi, segir í minningarorðum að það hafi verið fyrir tilstilli Jakobs að blaðið hófst til mikilla áhrifa á þeim tíma.

http://timarit.is/view_page_init.jsp?issId=83114&pageId=1183523&lang=is&q=Jakob%20M%F6ller

http://www.althingi.is/cv.php4?nfaerslunr=276