- Félagið
- Faglegt
- Kaup & kjör
- Styrkir & sjóðir
- Orlofskostir
- Mínar síður
Jón Birgir fæddist í Reykjavík 21. september. Foreldrar hans voru Pétur Jónsson bifreiðarstjóri og Jórunn Björnsdóttir. Hann lauk stúdentsprófi frá Verzlunarskóla Íslands árið 1959.
Jón Birgir starfaði hjá Flugfélagi Íslands um fjögurra ára skeið, en starfaði frá 9. júlí 1957 á Þjóðviljanum og dekkaði m.a. Ólympíuleikana í Róm 1960. Hann varð fréttamaður á Vísi frá 1963. Hann var fulltrúi hjá Hafskip hf. 1965–1966, fréttastjóri Vísis 1966 og Dagblaðsins 1975–1979. Hann var óháður blaðamaður og starfrækti Blaða- og fréttaþjónustuna að Hamraborg 1 í Kópavogi í tíu ár, var fréttastjóri Alþýðublaðsins 1990, blaðamaður við Tímann 1994, síðan við Dag-Tímann og við Dag og loks blaðamaður við DV frá september 1998.
Jón Birgir hefur gegnt ýmsum trúnaðarstörfum innan íþróttahreyfingarinnar, ritaði m.a. 50 ára sögu Knattspyrnufélagsins Þróttar og hefur gefið út bækur af ýmsu tagi. Hann hefur m.a. setið í stjórnum Þróttar, fimleikadeildar Gerplu og í Hjartaheill Reykjavík. Jón Birgir hefur gefið út tvær glæpasögur og fimm ævisögur.
Um Jón Birgi segir gamli ritstjórinn hans, Jónas Kristjánsson, í minningum sínum á jonas.is:
„Ritstjóri Vísis varð ég 1. september 1966. Fyrstu vikurnar voru stífar. Starfsmenn voru að hætta eða að fara í frí. Ég vann nótt sem nýtan dag við að koma blaðinu út á réttum tíma á degi hverjum. Það bjargaði, að ég fann Jón Birgi Pétursson, sem hafði verið íþróttafréttamaður. Gerði hann að fréttastjóra 1. desember 1966. Hann var hamhleypa til verka, setti hressan anda í fréttirnar og átti auðvelt með mannleg samskipti við blaðamenn. Samstarf okkar Jóns var farsælt um langt skeið og persónuleg samskipti okkar voru mikil. Mér féll það afar þungt, þegar leiðir okkar skildu löngu síðar af öðrum ástæðum.
Jón Birgir Pétursson var íþróttablaðamaður Þjóðviljans. Skrif hans vöktu athygli mína, voru læsilegri og fjörlegri en annarra blaðamanna. Að því leyti var Jón Birgir á svipuðum nótum og aðrir íþróttafréttaritarar þess tíma. Við flokkspólitískar aðstæður þroskaðist nútíma blaðamennska hraðar í skrifum um íþróttir en í öðrum fréttum. Jón Birgir var líka kjarkmaður, treysti sér til að standa í eldlínunni, þótt á honum stæðu spjót pólitískra varðhunda. Hann náði strax góðum tökum á fréttastjórastarfinu. Án framlags hans hefði Vísir ekki gengið upp sem líflegt, heiðarlegt og fjárhagslega öflugt fréttablað.“
http://timarit.is/files/12749472.pdf#navpanes=1&view=FitH
http://www.mbl.is/greinasafn/grein/1244518/