Jónas Jónsson frá Hriflu(1885-1968)

Jónas fæddist á Hriflu í Ljósavatnshreppi í S-Þingeyjarsýslu. Hann varð gagnfræðingur frá Akureyri árið 1905, en stundaði framhaldsnám í ýmsum Evrópulöndum, þar sem hann kynntist m.a. lýðháskólahreyfingunni í Danmörku og verkalýðshreyfingunni í Bretlandi. Jónas Jónsson frá Hriflu hefur þótt einhver áhrifamesti stjórnmálamaður Íslendinga á fyrri hluta 20. aldar. Hann átti þátt í stofnun Alþýðusambands Íslands og Alþýðuflokksins 1916 og Framsóknarflokksins árið eftir, var síðar formaður þess síðartalda og afar umdeildur ráðherra dómsmála og menntamála á árunum 1927-1931. Jónas frá Hriflu var helsti forvígismaðurinn um stofnun Tímans árið 1917 og þó hann yrði aldrei starfsmaður Tímans segir Guðjón Friðriksson í Nýjustu fréttum!, sögu fjölmiðlunar á Íslandi frá upphafi til vorra tíma  að enginn hafi skrifað meira í blaðið en Jónas næsta aldarfjórðung. Hafi mátt heyra til undantekninga ef ekki var grein eða greinar eftir hann í hverju blaði á árabilinu 1917-1942, að undanskildum ráðherratíma hans. Jónas skrifaði einnig fjölda greina í önnur blöð og tímarit. „Líklega hefur enginn Íslendingur skrifað eins margar greinar og hann,“ segir Brynleifur Tóbíasson, höfundur Hver er maðurinn?

„Jónas var harðskeyttur, óvæginn og persónulegur í greinaskrifum sínum og átti það til að fara offari. En hann var snjall, nánast eitraður penni, og notaði auðugt líkinga- og myndmál,“ segir Guðjón Friðriksson og að lesendur Jónasar hafi drukkið í sig greinar hans. „Með blaðaskrifum Jónasar var illvíg blaðamennska, sem stundum hafði einkennt aldamótablöðin, aftur sett í öndvegi í íslensk blöð.“ Guðjón Friðriksson hefur skrifað ævisögu Jónasar í þremur bindum.

http://is.wikipedia.org/wiki/J%C3%B3nas_fr%C3%A1_Hriflu

http://www.althingi.is/cv.php4?nfaerslunr=351

http://timarit.is/view_page_init.jsp?issId=247499&pageId=3360710&lang=is&q=J%F3nas%20J%F3nsson%20fr%E1%20Hriflu%20J%F3nas%20J%F3nsson