Loftur Guðmundsson(1906-1978)

Loftur fæddist á Þúfukoti í Kjós. 6. júní. Foreldrar hans voru Guðmundur Hansson bóndi og eiginkona hans, María Gottsveinsdóttir. Loftur stundaði nám í Reykjavík og lauk þar kennaraprófi árið 1931. Hann stundaði og nám í Svíþjóð og lauk leikfimikennaraprófi frá lýðskólanum í Tärna 1932. Hann lagði síðan fyrir sig kennslu, fyrst á Stokkseyri en lengst í Vestmannaeyjum. Árið 1945 fluttist Loftur ásamt fjölskyldu sinni frá Vestmannaeyjum til Reykjavíkur og bjó þar til dauðadags. Hann sneri sér nú eingöngu að blaðamennsku og ritstörfum. Um tuttugu ára skeið var hann blaðamaður, lengst af við Alþýðublaðið. Á blaðamannsárum hans birtust öðru hvoru í Alþýðublaðinu gamanþættir og skopkvæði eftir hann, sem margir höfðu gaman að. Hann vann jafnframt því yfirgripsmikil og fjölþætt ritstörf, frumsamdi og þýddi fjölda bóka, skáldverk og viðtalsbækur, leikrit og kvikmyndahandrit, ljóð og dægurlagatexta, auk ýmiskonar gamanmála. Undir það síðasta helgaði Loftur sig algjörlega ritstörfum. Loftur Guðmundsson hlaut verðlaun úr Móðurmálssjóði Björns Jónssonar. Um gamanþætti Lofts í Alþýðublaðinu segir Guðjón Friðriksson í fjölsmiðlasögu sinni, Nýjustu fréttir!: „Þessi gamanmál eða causeri voru undir samnefninu Brotnir pennar og var höfundur þeirra Loftur Guðmundsson blaðamaður. Hann hélt þeim úti í sex ár og var þetta nokkur nýjung í íslenskri blaðamennsku sem aðrir áttu eftir að stæla.“