Matthías Jochumsson(1835-1920)

Matthías fæddist í Skógum í Þorskafirði. Hann þótti snemma bókhneigður, en var kominn af almúgafólki. Þegar hann var kostaður til náms var hann eldri en tíðkaðist um upphaf skólagöngu. 27 ára nemandi í Lærða skólanum í Reykjavík samdi hann Útilegumennina sem voru frumsýndir árið 1862. Hefur ekkert íslenskt leikrit  notið ámóta vinsælda, en endanleg gerð leiksins kom út árið 1898 undir heitinu Skugga-Sveinn. Matthías útskrifaðist sem prestur 1867, þá þrjátíu og tveggja ára. Á skólaárum sínum byrjaði hann fyrir alvöru að skrifa bæði ljóð og leikrit, auk þess sem hann þýddi verk eftir erlenda öndvegishöfunda. Matthías vígðist sem prestur á Kjalarnes, en sagði sig frá embætti eftir að hafa misst tvær eiginkonur með skömmu millibili. Dvaldist hann erlendis um skeið en fyrir tilstilli vina sinna þar keypti hann Þjóðólf árið 1874 og varð  ritstjóri blaðsins um sex ára skeið. Hann sneri sér þá aftur að prestskap, fyrst í Odda á Rangárvöllum og síðan á Akureyri.  Fékk hann síðan skáldalaun frá Alþingi til dauðadags. Matthías var eitt helsta skáld síns tíma, afkastamikill með eindæmum og eftir hann er Lofsöngur, sálmurinn við þjóðsöng Íslendinga.

Í riti sínu Blöð og blaðamenn 1773-1944 segir Vilhjálmur Þ. Gíslason um ritstjóratíma Matthíasar að hann hafi fyrst og fremst verið skáld, andríkur, orðsnjall, máttugur og mælskur. Ýmsum þótti blaðamennska hans losaraleg og léleg, en Vilhjálmur segir að sr. Matthías hafi ekki verið pólitískur bardagamaður, þó að hann hafi oft þurft að eiga í deilum, þar sem honum hafi ekki verið hlíft. Sjálfur hafi Matthías þó ekki látið sitt eftir liggja í þessu efni. Í bók sinni Erill og ferill blaðamanns segir Árni Óla frá fyrstu og einu járnbrautarferðinni á Íslandi með eimvagninum sem flutti grjót ofan úr Öskjuhlíð í hafnargerðina í Reykjavík þegar Morgunblaðið var vikugamalt árið 1913. „Minnisstæðust er mér þessi ferð vegna þess, að Matthías Jochumsson skáld var þar með, og var hrókur alls fagnaðar á leiðinni. Hann hafði verið boðinn sem elsti blaðamaður Íslands, sem þá var uppi. Hann átti 78 ára afmæli daginn eftir.“

http://www.skaldhus.akureyri.is/mja.html

http://is.wikipedia.org/wiki/Matth%C3%ADas_Jochumsson

http://www.musik.is/Lof/lof-isl.html

http://www.leikminjasafn.is/leiksaga/lmmatjoc.html