Ólafur Björnsson(1884-1919)

Ólafur fæddist í Reykjavík og ólst þar upp. Ólafur var sonur Björns Jónssonar, stofnanda Ísafoldar,og tók við ritstjórn Ísafoldar 1909 þegar faðir hans varð ráðherra. Hann stofnaði einnig Morgunblaðið með Vilhjálmi Finsen, en Ólafur lést langt um aldur fram, aðeins 35 ára að aldri. Einn af fyrstu blaðamönnunum sem Ólafur réð til starfa, Jón Björnsson, minnist Ólafs með þessum orðum í blaði hans Ísafold við andlát hans í júní 1919: „Með honum hefir þessi fámenna þjóð misst einn sinn ágætasta dreng og þessi bær þann mann, sem flestum öðrum fremur gerði hann bjartan og hlýjan.“ Annar gamall vinur og skólabróðir Ólafs Björnssonar, Sigurður Guðmundsson, skólameistari á Akureyri, bregður upp þessari svipmynd af Ólafi í grein sem birtist 15 árum síðar, eða þegar Ólafur hefði orðið fimmtugur: „Hann var að eðlisfari friðarmaður, sannkallaður friðarhöfðingi, er sökum stöðu sinnar og aðstöðu rataði í stjórnmálaófrið og blaðadeilur. Hann erfði ófriðarríki föður síns, en ekki vopn hans né vígamóð. Þeir sýndust því stundum ólíkir, maðurinn Ólafur Björnsson og blaðamaðurinn Ólafur Björnsson.“ Sonur Ólafs var Pétur Ólafsson, einatt kenndur við Ísafold, en hann var blaðamaður á Morgunblaðinu um skeið og formaður Blaðamannafélagsins þegar það var endurreist sem oftar rétt fyrir seinni heimsstyrjöldina.