Sigurður Sigurðsson (1920-1997)

Sigurður fæddist í Hafnarfirði 27. janúar. Foreldrar hans voru Sigurður Sigurðsson, bifreiðarstjóri og síðar kaupmaður, og Elísabet Böðvarsdóttir, síðar kaupmaður. Fósturforeldrar hans voru Þórður Gunnlaugsson, kaupmaður í Reykjavík, og Ólafía Í. Þorláksdóttir. Sigurður lauk verslunarprófi frá Verslunarskóla Íslands 1938 og var við fiðlunám í Tónlistarskólanum í Reykjavík 1940­-1944. Árið 1943 réðst hann til Ríkisútvarpsins og vann þar í 37 ár. Fyrst var hann fulltrúi í innheimtudeild og innheimtustjóri, en síðan fréttamaður frá árinu 1964 og aðstoðarfréttastjóri frá 1974. Hann var jafnframt íþróttafréttamaður á árunum 1948-1971, þar af að aðalstarfi hjá útvarpi og sjónvarpi árin 1966-­1971, og varð hann þjóðkunnur sem slíkur. Ranghermt var hér á þessum stað að Sigurður hefði aldrei orðið félagi í Blaðamannafélagi Íslands því þegar betur er að gáð sést að hann er samþykktur inn í félagið 28. mars 1965. Sigurður var einn af stofnendum Samtaka íþróttafréttamanna, sem löngum hefur starfað til hliðar við BÍ, og um skeið var hann formaður samtakanna. Hann var sæmdur riddarakrossi Hinnar íslensku fálkaorðu fyrir brautryðjendastarf á sviði íþróttafréttamennsku og hlaut fjölda annarra viðurkenninga fyrir störf sín. Þar má nefna Gullmerki Alþjóðasambands íþróttafréttamanna og Sambands íþróttafréttamanna í Finnlandi og á Íslandi. Einnig gullmerki Vals og heiðursmerki FRÍ og KSÍ.