Sigurður Þórólfsson(1869-1929)

Sigurður fæddist í Holti á Barðaströnd. Sigurður ólst upp við fremur bág kjör, fór ungur að heiman, og stundaði sjósókn og hverskyns vinnu sem var að fá í kauptúnum Vestfjarða fram til tvítugsaldurs. Fór hann þá til náms í Ólafsdalsskóla og útskrifaðist þaðan sem búfræðingur. Litlu síðar lauk hann kennaraprófi frá Flensborgarskóla í Hafnarfirði.

Hann fékkst í kjölfarið við kennslu barna og unglinga en jafnframt því starfaði hann allmikið við blaðaútgáfu, var þannig um tíma starfsmaður hjá Birni Jónssyni, ritstjóra í Ísafold,  starfsmaður hjá Einari Benediktssyni á dagblaði hans Dagskrá og um tíma meðritstjóri Dagskrár ásamt Sigurði Júl. Jóhannessyni. Ennfremur gaf hann um árabil út búnaðarblaðið Plóg og ritaði megnið af efni þess blaðs sjálfur.  Sigurður hafði brennandi áhuga á menntamálum, ekki síst lýðháskólum, og fór sjálfur til náms í Askov í Danmörku. Hann stofnaði síðan lýðháskólann á Hvítárbökkum sem hann stýrði frá 1905-1920, en skólinn var sameinaður Reykholti 1931. Hann er móðurafi Árna Snævarr fyrrverandi fréttamanns og upplýsingafulltrúa.

http://timarit.is/view_page_init.jsp?issId=276866&pageId=3954575&lang=is&q=Sigur%F0ur

http://www.mbl.is/greinasafn/grein/1045409/