Stefán Pétursson(1898-1987)

Stefán fæddist á Núpum í Aðaldal. Hann lauk stúdentsprófi árið 1920 og þótti afburða námsmaður. Hann lauk námi í forspjallsvísindum við Háskóla Íslands 1921 og hélt síðan til náms í sagnfræði, heimspeki og félagsfræði við háskólann í Berlín. Hann var þá orðinn sannfærður marxisti og gerðist víðlesinn í þeim fræðum ekki síður en þeim greinum sem hann hugðist nema við háskólann í Berlín. Hann skrifaði bókina Byltingin í Rússlandi 1921 og þýddi ásamt Einari Olgeirssyni Kommúnistaávarpið sem kom út 1924. Var Stefán á þessum árum í fylkingarbrjósti ungra, róttækra manna á Íslandi, en sneri baki við þeirri hreyfingu eftir bitra reynslu af ógnarstjórn kommúnista í Sovétríkjunum. Hann gerðist blaðamaður  við Alþýðublaðið 1934 og var ritstjóri þess allra manna lengst, eða frá 1939-1950, er hann varð þjóðskjalavörður.