Sveinn Skorri Höskuldsson(1930-2002)

Sveinn Skorri fæddist á Sigríðarstöðum í Hálshreppi í Suður-Þingeyjarsýslu 19. apríl. Foreldrar hans voru Höskuldur Einarsson bóndi og Sólveig Bjarnadóttir. Sveinn lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum á Akureyri árið 1950 og MA-prófi í íslenskum fræðum frá Háskóla Íslands árið 1958. Sveinn stundaði auk þess nám í dönskum bókmenntum við Kaupmannahafnarháskóla árið 1958-1959, í enskum bókmenntum við Manitoba-háskóla í Winnipeg árið 1960-1961 og bókmenntum við Háskólann í Uppsölum árin 1964-1967. Þá lagði hann stund á rannsóknir við helstu háskóla Danmerkur, Kanada og Þýskalands um árabil. Sveinn Skorri var lektor í íslensku máli og bókmenntum við Uppsala-háskóla í sex ár 1962-1968, en árið 1968 tók hann við stöðu lektors í íslenskum bókmenntum við Háskóla Íslands. Tveimur árum síðar, 1970, var hann skipaður prófessor við sama skóla og gegndi því starfi þar til hann komst á eftirlaunaaldur. Sveinn Skorri er á félagaskrá Blaðamannafélags Íslands 1959. Hann er þá blaðamaður á Tímanum og hefur starfað þar um hríð sem sumarmaður og með háskólanámi. Í fjölmiðlasögunni Nýjustu fréttir! er haft eftir Halli Símonarsyni vegna óvænts fráfalls Hauks Snorrasonar ritstjóra: „Eftir lát Hauks kom ansi mikill drungi yfir Tímann þó við værum þá með geysigott lið blaðamanna. Jökull Jakobsson var þarna, Sveinn Skorri Höskuldsson, Ólafur Jónsson, Óli Gaukur, Sveinn Sæmundsson og fleiri.“

Sveinn Skorri var hins vegar farinn til náms í Winnepeg í Kanada ári síðar og helgaði sig eftir það fræðastarfi.

http://www.hugras.is/2011/10/sveinn-skorri-hoskuldsson/