Thorolf Smith(1917-1969)

Thorolf  fæddist í Reykjavík. Hann varð stúdent frá Menntaskólanum í Reykjavík 1935. Hann hélt þá til Noregs og tók próf frá verzlunarskóla í Björgvin árið eftir, en hóf svo nám við Háskóla Íslands og tók þar heimspekipróf 1939 og fyrrihlutapróf í lögfræði 1940. Það ár réðst Thorolf sem fréttamaður til Ríkisútvarpsins og starfaði á fréttastofunni til 1942. Þá hóf hann störf sem blaðamaður Alþýðublaðsins og vann þar til 1947, en fór þá til Vísis og var þar til 1956, er hann réðst aftur til fréttastofu útvarpsins þar sem hann starfaði til dauðadags. Thorolf skifaði nokkrar bækur, m.a. um Bandaríkjaforsetana Abraham Lincoln og John F. Kennedy. Við fráfall hans skrifaði Andrés Kristjánsson, ritstjóri Tímans, um hann minningarorð og sagði m.a.: „Samstarfsmenn Thorolfs í blaðamannastétt eiga um hann margar góðar minningar og þeir muna hann sem góðan dreng og ágætan félaga, skemmtinn og félagslyndan. Hann var glæsimenni í sjón og gerð og átti jafnan ríkan samhug þeirra, sem kynntust honum. Þótt störf hans og afköst á of stuttu æviskeiði væru mikil og góð, vissu þeir, sem þekktu hann bezt, að allir hæfileikar hans, fjölþættar gáfur, menntun og miklir mannkostir stóðu til meira hlutskiptis en örlög leyfðu.“