Þorsteinn Jósepsson(1907-1967)

Þorsteinn var Borgfirðingur og fæddist á Signýjarstöðum í Hálsasveit, sonur Jóseps G. Eliesersonar og Ástríðar Þorsteinsdóttur..Hann varð á sínum tíma þekktur sem víðförull ferðalangur, rithöfundur og blaðamaður á Vísi, og ekki síst sem ljósmyndari. Í grein á heimasíðu Minjasafns Akureyrar vegna sýningar á myndum hans er vitnað í Borgfirskar æviskrár, en þar segir um Þorstein meðal annars: „Þorsteinn var ötull og óþreytandi ferðamaður og hafði ferðast um allar byggðir landsins. Hann var afburða snjall ljósmyndari, átti stórmerkt ljósmyndasafn og hlaut verðlaun fyrir landslagsmyndir sínar. Prýða myndir hans margar af Árbókum Ferðafélagsins og Héraðssögu Borgarfjarðar.“ Ennfremur kemur fram að Þorsteinn lærði aldrei ljósmyndun, en hafi þrátt fyrir það unnið gríðarlegt verk með því að taka ljósmyndir af nær öllu landinu, hverri einustu sýslu og stórum hluta hálendisins, staðháttum og mannlífi.

„Það var þegar hann dvaldi í Þýskalandi og Sviss sem yfir Þorstein kom „stjórnlaus löngun“ til að taka myndir af undrum heimsins og þá rauk hann í næstu ljósmyndaverslun og fjárfesti í góðri myndavél. Eftir það varð ekki aftur snúið. Frændi Þorsteins og nafni, Þorsteinn Þorsteinsson frá Húsafelli, minnist þess að hann hafi alltaf haft „með sér þrífót og filtra til að ná betur sérkennum himins og landlags“, að hann hafi alltaf vandað myndatökur en „miðaði ekki af handahófi eins og flestir gerðu heldur stillti vélinni á þrífót, mældi ljós og íhugaði áður en mynd var tekin“. Þorsteinn Jósepsson þótti því mjög frambærilegur ljósmyndari og myndir hans birtust í bókum á borð við Ísland í myndum og Landið þitt. Myndir hans þykja hafa mikið heimildargildi sé litið til hversu yfirgripsmikil og margþætt skráning hans á landi og lífsháttum var, og það er jafnframt ástæðan fyrir því að safn Þorsteins er eitt það heildstæðasta og merkasta frá miðri síðustu öld. Af blaðmanninum fer hins vegar tvennum sögu, a.m.k. ef marka má Jónas Kristjánsson, ritstjóra, í minningum hans á jonas.is, því þar segir á einum stað: „Þorsteinn Jósepsson var lögreglufréttaritari Vísis. Var eini maðurinn, sem handskrifaði fréttirnar. Ég hafði aldrei séð það áður og átti aldrei eftir að sjá það. Samtal við Þorstein Thorarensen leiddi í ljós, að ekki mundi þýða að bjóða Þorsteini Jósepssyni að skrifa um neitt annað efni. Hann ynni bara sitt fasta starf og snerti ekki á öðru. En biðja mætti hann með lagni um ljósmyndir frá ýmsum stöðum á Íslandi. Ég veit ekki hvernig Þorsteinn varð blaðamaður, en hann var greinilega of sérhæfður og sérvitur fyrir nútíma blaðamennsku. Var minnisvarði aftan úr fyrri áratugum aldarinnar.“   Í ættfræðipistli í DV frá því í júlí árið 2000 segir hins vegar: „Þorsteinn var blaðamaður á Vísi frá 1939 til dauðadags, Hann var án efa einn mikilhæfasti blaðamaður sem þjóðin hefur átt, góður rithöfundur, vandvirkur, fjölmenntaður og auk þessa mjög listrænn ljósmyndari.“

http://timarit.is/view_page_init.jsp?issId=184160&pageId=2390411&lang=is&q=%DEorsteinn