Þorsteinn Thorarensen (1927-2007)

Þorsteinn fæddist í Móeiðarkoti í Rangárvallasýslu. Hann dagsetur upplýsingar sínar fyrir blaðamannatal það sem verið var að taka saman á sjötta áratug síðustu aldar hinn 9. júní 1953. Þar kemur fram að hann hafi lokið lögfræðiprófi 1952. Hann byrjaði hins vegar 1947 í blaðamennsku og því stundað hana með námi, en starfsvettvangur hans fram að þessu hefur verið Morgunblaðið. Meðmælendur Þorsteins á umsóknarblaðinu eru þeir Þorbjörn Guðmundsson á Morgunblaðinu og Andrés Kristjánsson á Tímanum.

Við þetta er því að bæta að Þorsteinn varð stúdent frá Menntaskólanum í Reykjavík árið 1946 og lauk lagaprófi frá Háskóla Íslands 1952 eins og áður er nefnt. Hann starfaði sem blaðamaður við Morgunblaðið frá 1947-1961, fréttastjóri við dagblaðið Vísi frá 1961-1966 og var fréttaritari Reuters-fréttastofunnar á árunum 1951 til 1986. Þorsteinn stofnaði bókaútgáfuna Fjölva árið 1966 og starfaði þar við umfangsmikla útgáfu og margvísleg ritstörf. Eftir Þorstein liggur mikill fjöldi ritverka af fjölbreytilegum toga, bæði frumsamin verk og þýdd.

Í tilefni af 50 ára stúdentsafmælis árgangs hans 1996 kom út „Fauna - 1946“ og þar birtir Steini Thor eins og hann var jafnan kallaður grínagtugt æviágrip sitt þar sem þetta er m.a. að finna: „Svo fór Bjarni Ben. að regera á Mogganum. Steina líkaði illa við hann og Bjarna illa við Steina, svo hann rauk burt. Bjarni hallaði sér að Sigurði A. Magnússyni bolsa og Kastrósinna, sem síðan hefur þó snúið við blaðinu og gengið til liðs við Fjölva! Steini brotlenti þá á Vísi 1961, skrifaði föstudagsgreinar og setti blaðið á hausinn. Þar með hófst eiginlegt lífsstarf hans 1966 að stofna Fjölva og setja hægt og bítandi á hausinn og nálgast hann óðum það langþráða mark. Hann gerðist pabbi Tinna á Íslandi og samdi einu skordýrafræðina sem til er á íslensku. Hann hefur gefið út 600 bækur sem mynda einstakar 30 metra háa súlur, en allt upplagið vegur um tvö þúsund tonn, allt að verða uppselt. Var um tíma að dauða kominn, en bjargaði sér með Toppforminu og yngist nú upp með hverju ári og er orðinn algjört tölvufrík.“ Eiginkona Þorsteins Thorarensen er Sigurlaug Bjarnadóttir sem  var um tíma félagi í Blaðamannafélagi Íslands meðan hún starfaði á Morgunblaðinu í nokkur ár.

http://www.mbl.is/greinasafn/grein/1113363/