Vignir Guðmundsson(1926-1974)

Vignir fæddist á Seyðisfirði 6. október. Foreldrar Vignis voru hjónin Arnbjörg Sveinsdóttir og Guðmundur Jónsson, bóndi á Mýrarlóni við Akureyri. Vignir stundaði nám við Menntaskólann á Akureyri, en vann síðan við skrifstofu- og verslunarstörf, þar til hann gerðist tollvörður, en því starfi gegndi hann um fimm ára skeið. Það var á þeim árum sem blaðamannsferill Vignis Guðmundssonar hófst með því að hann gerðist fréttaritari Morgunblaðsins á Akureyri 1951. Árið 1955 var hann síðan ráðinn blaðamaður við Morgunblaðið og gegndi því starfi í hartnær tvo áratugi, eða þar til hann varð að láta af störfum vegna langvarandi heilsubrests. Í blaðamennsku sinni lagði Vignir sérstaka áherslu á málefni og fréttir sem tengdust landbúnaði og öðrum atvinnuvegum. Þá var hann fyrsti ritstjóri tímaritsins Flug (1956—57) og hann annaðist ritstjórn tímarits hestamanna, Hesturinn okkar, fyrstu þrjú árin, eða 1960-1962.