50 ár á fréttavakt

Frá ritstjórnarfundi í Kringlunni í október 2003. Sigtryggur útdeilir verkefnum. Á myndinni eru einn…
Frá ritstjórnarfundi í Kringlunni í október 2003. Sigtryggur útdeilir verkefnum. Á myndinni eru einnig
Arnór Gísli Ólafsson, Örlygur Sigurjónsson, Brjánn Jónasson og Björgvin Guðmundsson.
Ljósmynd Golli.

Að afloknum vinnudegi í gær hafði  Sigtryggur Sigtryggsson á Morgunblaðinu unnið sem blaðamaður í 50 ár. „Mér líður bara skrambi vel,“ sagði Sigtryggur þegar press.is sló á þráðinn til hans í morgun og spurði hvernig mönnum liði eftir að hafa verið í blaðamennsku allan þennan tíma.  Það hafa ekki margir verið virkir í þessu starfi svona langan tíma en þó munu þess dæmi. Sigtryggur kveðst ekkert vera að íhuga að hætta þó hann segi að auðvitað komi að því.   „Hvers vegna ætti maður að vera að hætta þegar maður er enn sprækur og vinnur við það sem maður hefur áhuga á og hefur jafn gaman af  og í upphafi?“ segir hann.  Fyrir nokkrum árum var 70 ára reglan, sem gerði mönnum að hætta um sjötugt, afnumin á Morgunblaðinu, og  Sigtryggur kveðst bara segja eins og þau í boltanum þar sem litið sé til eins leiks í einu -  hann taki bara eitt ár í einu.

Aðspurður um hvað standi upp úr segir Sigtryggur eftir umhugsun að hann hafi verið fréttastjóri í 35 ár og það hafi verið skemmtilegur tími, en að öðru leyti sé kannski Geirfinnsmálið eitthvað sem hann hafi fylgt honum, hann hafi dekkað það frá fyrstu frétt sem skrifuð var um þetta mál og í gegnum öll réttarhöld og til sýknudóms í Hæstarétti.

Sigtryggur hóf tvítugur störf á Alþýðublaðinu árið 1970 og varð þar fréttastjóri 193-74. Þá fór hann yfir á Morgunblaðið þar sem hann hefur verið síðan, fyrst sem blaðamaður, síðan  sem fréttastjóri til 2016 og þá fulltrúi ritstjóra.

Sigtryggur er handhafi blaðamannaskírteinis  nr. 12 og hefur gegnt margvíslegum trúnaðarstörfum fyrir BÍ í gegnum árin.

Rætt er við Sigtrygg í bókinni „Í hörðum slag, íslenskir blaðamenn II“,  eftir Guðrúnu Guðlaugsdóttur sem kom út árið 2016. Þar lýsir Sigtryggur tveimur tæknibyltingum sem orðið hafa á hans vakt á Mogganum.  Gefum honum orðið um þetta:

„Þegar ég kom á Moggann tók maður fréttir í gegnum síma. Þá var mikið mál að hringja út á land, kostaði mikla peninga og maður þurfti að panta samtöl í gegnum dömurnar á 02. Ég tala nú ekki um ef hringja átti til útlanda, þá þurfti sérstakt leyfi og panta í gegnum 09. Erlendu fréttirnar komu í gegnum fyrirbæri sem hét telex. Svona var þetta ennþá þegar ég tók við sem fréttastjóri 1981.

Svo gerðist það árið 1986 að til sögunnar kom tæki sem síðar var keypt á Morgunblaðið. Ég var að taka viðtal við Ragnar Halldórsson hjá Álverinu. Að viðtalinu loknu segir hann: „Heyrðu, ég þarf að sýna þér tæki sem við vorum að fá.“ Hann opnaði svo herbergi og þar inni var tæki sem mér fannst mjög stórt. „Við köllum þetta faxtæki,“ sagði Ragnar. „Jæja já, og hvernig virkar það,“ sagði ég. „Við fáum á hverjum morgni út úr tækinu upplýsingar á blaði og getum svo sent okkar upplýsingar til baka í gegnum það.“ Þetta var væntanlega eitt fyrsta faxtæki sem kom hingað til lands.

Ég bar þetta undir Björn Thors stjórnanda tæknimála á blaðinu sem kannaði málið og sagði svo að Morgunblaðið hefði varla efni á að kaupa svona tæki, það myndi jafnvel kosta milljónir króna. Svo leið einhver tími þangað til tækið var keypt. Eftir það komu nánast allar tilkynningar á faxtækinu. Fram að því höfðu sendlar og leigubílar komið með fréttatilkynningar niður á Morgunblað. Þá var oft kraðak af leigubílum fyrir framan húsið við Aðalstræti. Þegar faxtækin voru komin í notkun sagði leigubílstjóri við mig: „Þessi faxtæki eiga eftir að útrýma okkur leigubílstjórunum. Þau taka svo mikla vinnu frá okkur.“