Að gefnu tilefni

Hjálmar Jónsson, formaður BÍ
Hjálmar Jónsson, formaður BÍ

Að gefnu tilefni

Í ágætum leiðara í Fréttrablaðinu í morgun er vikið að Blaðamannafélagi Íslands og meintri þögn þess um það mikilvæga hagsmunamál blaðamanna að ákvæði um æruvernd séu færð úr hegningarlögum og undir almenna löggjöf  Þetta er sannarlega mikilvægt hagsmunamál blaðamanna og annarra sem vilja veg tjáningarfrelsisins sem mestan og raunar furðulegt að tillögur þessa efnis séu ekki löngu komnar fram, einkum í ljósi þess að þær hafa lengi verið í umræðunni og óumdeilt að mestu að það er tímaskekkja að hafa ákvæði sem varðar tjáningarfrelsi í almennum hegningarlögum.

Það gleður mig að frumvarpið er komið fram á Alþingi og er til meðferðar hjá allsherjar- og menntamálanefnd.  Ég, sem fulltrúi Blaðamannafélags Íslands, átti sæti í nefnd sem forsætisráðherra skipaði til að endurskoða lagabálka sem varða tjáningarfrelsi með það að markmiði að styrkja það í sessi í íslensku samfélagi.  Þetta frumvarp er eitt þeirra fjölmörgu frumvarpa og breytingartillagna til styrktar tjáningarfrelsinu, sem er afrakstur þeirrar vinnu.  Blaðamannafélagið styður auðvitað frumvarpið heils hugar og ég fyrir hönd þess biðst forláts á því að í annríki undnfarinna daga fórst fyrir að senda inn umsögn til allsherjar- og menntamálanefndar fyrir boðuð tímamörk 15. nóvember sl. en þá stóð einmitt yfir verkfall BÍ.  Ég þakka leiðarahöfundi fyrir að hafa vakið athygli mína á þessari yfirsjón og hef gert ráðstafanir til þess að gera bragarbót í þeim efnum.

Hjálmar Jónsson, formaður BÍ