Að gefnu tilefni: „Það er gott að eiga iðnaðarmenn að”

Ég fagna því að framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins hyggist setjast niður með samninganefnd Blaðamannafélags Íslands fljótlega vegna þeirrar stöðu sem upp er komin í kjaradeilu félagsins við viðsemjendur sína, eins og fram kemur í Morgunblaðinu í dag.  Það stendur svo sannarlega ekki á félagi blaðamanna, enda sú staða sem uppi er grafalvarleg.

Ég get líka fyllilega staðfest þau orð framkvæmdastjórans að tilboð SA fyrir hönd fyrirtækja sem standa í fjölmiðlarekstri og eru innan vébanda SA „var sambærilegt við aðra kjarasamninga sem SA hafa gengið frá á undanförnum vikum og misserum.”  Tilboðið er raunar svo sambærilegt að þar segir orðrétt:  „Samningsaðilar skulu skipa starfshóp sem skipaður verði þremur fulltrúum stéttarfélaga iðnaðarmanna (leturbr. mín) og þremur fulltrúum Samtaka atvinnulífsins.” Maður má auðvitað vera stoltur af afrakstri sex mánaða samningaviðræðna þegar svona hlutir eru undir og blaðamenn mega auðvitað vera sáttir við að hafa beðið eftir kjarabótum frá því snemma í vor, þegar þetta er haft í huga!

Það liggur fyrir að rekstur fjölmiðla er afar erfiður nú um stundir.  Raunar er að finna stutta samantekt um það í Fréttablaðinu í morgun.  Það hefur líka verið í umræðunni að ríkisvaldið styrki fjölmiðlakerfið í landinu vegna mikilsvægis þess fyrir lýðræðið, þegar rekstraraðstæður þess eru jafn erfiðar og raun ber vitni.  Það voru því sannarlega ekki létt skref sem stjórn og samninganefnd BÍ tók í gær þegar ákveðið var að slíta viðræðum og hefja undirbúning aðgerða.  Það hjálpaði okkur hins vegar sannarlega við ákvaðanatökuna að það var í raun búið að fækka valkostunum niður í einn!

Ég hef verið í forystu Blaðamannafélagsins í nær þrjá áratugi og held raunar upp á það í ár að það eru nákvæmlega 30 ár síðan ég undirritaði fyrsta kjarasamninginn fyrir hönd félaga í BÍ og samstarfsmanna á Morgunblaðinu, þar sem ég starfaði í aldarfjórðung, við Félag íslenka prentiðnaðarins.  Á þessum tíma hef ég staðið að gerð svonefndra núll samninga, eins og raunin var þegar þjóðarsáttarsamningarnir voru gerðir.  Ég átti líka þátt í að gera kjarasamning tíu árum síðar sem færði blaðamönnum verulega kjarabót, og allt þar á milli. Allan þennan tíma hefur Blaðamannafélaginu tekist að ganga frá samningum án átaka og lengst af án milligöngu ríkissáttasemjara.  Nú er öldin önnur og blaðamenn munu láta skeika að sköpuðu.

 Hjálmar Jónsson, formaður Bí