Aðalfundur og samningakröfur

Hjálmar Jónsson á aðafundinum í gærkvöldi.
Hjálmar Jónsson á aðafundinum í gærkvöldi.

Aðalfundur BÍ fór fram í gær í Blaðamannakúbbnum í Síðumíla 23. Fundurinn var markviss og fram kom í skýrslu Hjálmars Jónssonar, formanns að rekstur félagsins hafi verið góður í fyrra, hagnaður hafi verið af starfseminni og fjárhagsleg staða BÍ góð.  Ekki urðu miklar breytingar á forustu  og trúnaðarmönnum félagsins og er Hjálmar áfram formaður og Ragnhildur Aðalsteinsdóttir varaformaður. ( Sjá uppfærðan lista yfir stjórn og trúnaðarmenn hér)

Framundan eru kjarasamningar hjá blaðamönnum og var fyrsti samningafundurinn haldinn í dag, föstudag.  Kröfur vegna kjarasamningaviðræðna 2019 eru fjölbreyttar og hér á eftir má sjá lista yfir kröfugerðina:

1.       Blaðamönnum sé að lágmarki tryggð sambærileg launaþróun og öðrum stéttum.

2.       Opið verði milli 1. og 2. flokks.

3.       Launaflokkar og starfsaldurshækkanir taki í auknum mæli mið af aukinni menntun og hærri starfsaldri í stétt blaðamanna

4.       Ákvæði kjarasamninga um vaktavinnu verði yfirfarin og það skoðað hvort hagkvæmt sé að hverfa frá jafnaðarálagskerfi og taka í staðinn upp hlaupandi vaktaálag.

5.       Sett verði inn ákvæði sem tryggja réttindi hlutavinnustarfsfólks.

6.       Höfundarréttarsamningar á einstaka miðlum verði yfirfarnir og samræmdir í auknum mæli.

7.       Sérsamningar verði gerðir við RÚV og Sýn vegna sérstaks eðlis starfa þar.

8.       Upphæðir og ákvæði slysatrygginga verði endurskoðuð, sbr. nefnd sem ljúka átti störfum á gildistíma síðasta kjarasamnings. 

9.       Sérstakar álagsgreiðslur komi til vegna starfa á fleiri en einum fjölmiðli.

10.   Vinnutími samkvæmt fastlaunasamningum verði gagnsær og skylt verði að setja inn í fastlaunasamninga ákvæði um hámarksvinnutíma.

11.   Uppsagnarfrestur af hálfu atvinnurekanda verði lengdur og taki mið af starfstíma.

12.   Skylt verði að rökstyðja uppsagnir skriflega.

13.   Greiðslur vegna fjölmiðla og síma- og netnotkunar verði yfirfarnar með tilliti til breyttra aðstæðna.

14.   Sett verði ákvæði í kjarasamninga um rétt til endurmenntunar í vinnutíma.

15.   Júlí- og desemberuppbætur verði hækkaðar.

16.   Heimilt verði að semja um hærri framlög starfsmanna með langan starfsaldur

17.   Greiðslur hækki í styrktarsjóð

18.   Settar verði reglur um tímabundnar ráðningar

19.   Samningstími taki mið af innihaldi kjarasmanings.