Aðljóðlegar siðareglur komnar á vefinn

Nýjar alþjóðlegar siðareglur fyrir blaðamenn sem samþykktar voru á þingi IFJ í Túnis á dögunum breyttust ekki  mikið frá þeim drögum sem kynnt höfðu verið fyrir nokkrum mánuðum, en reglurnar höfðu farið til umsagnar og endurskoðunar hjá blaðamannasamtökum um allan heim áður en til samþykktar þeirra kom. Fyrir utan smávægilegar orðalagsbreytingar eru það e.t.v. tvær breytingar sem vekja athygli.

Sú fyrri tengist hugtakinu „sannleikur” og er í 1.grein talað um staðreyndir þar sem áður var talað um sannleika.  Þannig segir nú að virðing fyrir staðreyndum sé ein grunn skylda blaðamanns þar sem áður var virðing fyrir sannleika. Eftir sem áður er þó talað um að almenningur eigi rétt á að vita hið sanna.

Seinni breytingin er e.t.v. mikilvægari en í drögunum hafði verið nokkuð sterkt tekið til orða um réttinn til friðhelgi einkalífs. Í 8. grein í drögum að reglunum sagði að blaðamaður „miðlar þá og því aðeins upplýsingum sem almennt falla undir friðhelgi einkalífs að um sé að ræða upplýsingar sem varða mikilvæga almannahafsmuni“  ( „…disseminate information normally goverend by the right to privacy where it is overwhelmingly in the public interest to do so“).  Þessi setning er öll felld út í endanlegum reglum, en eftir stendur ákvæði um að gætt sé virðingar viðmælanda eða umfjöllunarefnis og að viðkomandi sé látinn vita að til standi að birta viðtal/samtal,  auk þess sem sérstakra aðgát skuli sýna reynslulitlu fólki og þeim sem eru í viðkvæmri stöðu.

Reglurnar eru nú komnar hér inn á síðu BÍ á íslensku og má sjá þær hér.