Alþjóðlegur dagur fjölmiðlafrelsis

Til­gang­ur­inn með þess­um alþjóðlega degi fjöl­miðlafrels­is er meðal annars að minna stjórnvöld á…
Til­gang­ur­inn með þess­um alþjóðlega degi fjöl­miðlafrels­is er meðal annars að minna stjórnvöld á nauðsyn þess að virða skuld­bind­ing­ar um fjöl­miðlafrelsi.

Dagurinn í dag er tileinkaður frelsi fjölmiðla um allan heim. Um leið er hann haldin hátíðlegur í minningu þeirra fjölmiðlamanna og blaðamanna sem hafa látið lífið við störf. Alþjóðlegur dagur fjölmiðlafrelsis (World Press Freedom Day) var settur á laggirnar árið 1993 af Alsherjaþingi Sameinuðu þjóðanna í kjölfar ályktunar sem hafði verið samþykkt á Alsherjarþingi UNESCO tveimur árum áður.

„Lýðræði stendur ekki undir nafni án aðgangs að gagnsæjum og áreiðanlegum upplýsingum. Það er hornsteinn sanngjarnra og óvilhallra stofnana sem draga valdhafa til ábyrgðar og segja valdamönnum sannleikann,” er haft eftir António Guterres, aðalframkvæmdastjóra Sameinuðu þjóðanna í ávarpi í tilefni dagsins.

Tilgangurinn með þessum alþjóðlega degi fjölmiðlafrelsis er að minna stjórnvöld um allan heim á nauðsyn þess að virða alþjóðlegar skuldbindingar um fjölmiðlafrelsi. Dagurinn er einnig ætlaður til umhugsunar innan stétta fjölmiðlafólks um málefni þessu tengd og siðferði blaðamennsku. Ekki er síður mikilvægt að á þessum degi ber að styðja fjölmiðla sem verða fyrir barðinu á takmörkunum eða afnámi fjölmiðlafrelsis. Jafnframt er minnst blaðamanna sem hafa týnt lífi við skyldustörf.

Höfum í huga að á síðustu sex árum hafa ríflega 600 blaðamenn verið drepnir. Í níu af hverjum tíu tilfellum hefur ekki tekist að refsa hinum seku. Þessu til viðbótar hafa hundruð blaðamanna verið handteknir en handtökur blaðamanna eru daglegt brauð víða um heim. Þá er ráðist á þá, þeim misþyrmt og þeim hótað með margvíslegum hætti. Undanfarið hafa blaðamenn orðið að upplifa nýjar hættur sem felast í ógnunum sem koma frá netinu þar sem hótanir um að gögn þeirra eða heimildarmenn verði afhjúpuð eru að færast í aukana.