Arna Schram látin

Arna Schram, blaðamaður og fyrrum formaður Blaðamannafélags Íslands, er látin 53 ára að aldri.

Arna var fædd 15. mars  árið 1968 í Reykjavík dóttir Ellerts B. Schram, fyrrverandi ritstjóra og alþingismanns og Önnu Guðlaugar Ásgeirsdóttur, tölvuritara.  Arna lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum í Reykjavík 1988 og BA prófi í stjórnmálafræði og heimspeki frá Háskóla Íslands og Kaupmannahafnarháskóla og síðar MBA-gráðu með áherslu á stjórnun, rekstur og markaðsmál frá Háskólanum í Reykjavík.

Arna fór ung að starfa við blaðamennsku.  Hún byrjaði á DV en fór síðan yfir á Morgunblaðið árið 1995 og starfaði þar á annan áratug.  Hún var síðan aðstoðarritstjóri Króníkunnar um skamma hríð og varð síðan fréttastjóri á Viðskiptablaðinu um þriggja ára skeið.  Eftir það hóf hún störf hjá Kópavogsbæ og varð þar forstöðumaður menningarmála uns hún varð forstöðumaður menningar- og ferðamálasviðs Reykjavíkur frá árinu 2017 til dánardags.

Arna gegndi margvíslegum trúnaðarstörfum fyrir Blaðamannafélag Íslands um tæplega tveggja áratuga skeið.  Hún kom inn í stjórn félagsins skömmu fyrir aldamót og varð varaformaður félagsins 2003 til 2005 og síðan formaður til ársins 2009.  Hún varð síðar fulltrúi félagsins í Fjölmiðlanefnd og vann önnur trúnaðarstörf fyrir félagið. Dóttir Örnu er Birna Ketilsdóttir Schram, fædd 1994.

Arna var einstaklega vönduð og samviskusöm í öllum störfum sínum fyrir Blaðamannafélagið og hafði djúpan skilning á mikilvægi góðrar blaðamennsku fyrir samfélagið.  Hún hafði þannig mikinn metnað fyrir hönd fagsins og vildi veg blaðamennskunnar sem mestan.  Hún var einnig einstaklega góður og heiðarlegur samstarfsmaður og vinur alla tíð.  Milli okkar var strengur sem aldrei slitnaði, þrátt fyrir að samskiptin hafi ekki verið mikil síðustu árin.  Að leiðarlokum eru henni þökkuð trúnaðarstörf fyrir Blaðamannafélag Íslands og vinátta alla tíð. Sömuleiðis votta ég dóttur hennar og öðrum aðstandendum mína dýpstu samúð. 

 Hjálmar Jónsson