Arnhildur verðlaunuð

Arnhildur Hálfdánardóttir með verðlaunagripinn, jarðarberið. (Mynd: Uumhverfis- og auðlindaráðuneyti…
Arnhildur Hálfdánardóttir með verðlaunagripinn, jarðarberið. (Mynd: Uumhverfis- og auðlindaráðuneytið)

Umhverfis- og auðlindaráðherra, Guðmundur Ingi Guðbrandsson veitti í dag á Degi íslenskrar náttúru Arnhildi Hálfdánardóttur fjölmiðlaverðlaun umhverfis- og auðlindaráðuneytisins fyrir þáttaröðina Loftslagsþerapían sem var á dagskrá Rásar 1 síðastliðinn vetur.

Þrjár aðrar tilnefningar höfðu einnig verið kynntar en það voru:  

Axel Bjarkar Sigurjónsson, Hálfdán Helgi Matthíasson, og Sölvi Bjartur Ingólfsson, fyrir heimildamyndina Mengun með miðlum.
Jóhann Bjarni Kolbeinsson, RÚV, fyrir umfjöllun um náttúru Íslands.
Sunna Ósk Logadóttir, Kjarnanum, fyrir fréttaskýringar um virkjanamál.

Segir í rökstuðningi dómnefndar að með þáttunum hafi Arnhildur skoðað ýmsa snertifleti loftslagsbreytinga við hið mannlega, meðal annars pólitík og siðferði. „Hún fer líka yfir sögu á mælingum á losun koltvísýrings frá því að hún var fyrst sett í samhengi við hlýnun jarðar og rifjar upp náttúruhamfarir síðustu ár og áratugi. Fyrst og fremst rýnir Arnhildur þó í viðbrögð og líðan fólks. Hún skoðar pólitíkina í kringum loftslagsmálin og spyr hvort hún sé hluti af lausninni eða standi í vegi fyrir henni og hún reynir að kryfja vandann með hjálp siðfræðinnar og trúarbragða. Hún ræðir við fjölbreyttan hóp fólks, meðal annars fræðafólk og aðgerðasinna en líka nokkra ástvini sína auk þess að segja frá eigin líðan og hugsunum,“ segir í rökstuðningnum. Hljóðmynd þáttanna sé afar falleg og Arnhildi hafi tekist með bæði orðum og tónum að nálgast staðreyndir um eitt mest aðkallandi umfjöllunarefni samtímans á hlýjan og listrænan hátt.

Verðlaunagripur Fjölmiðlaverðlaunanna nefnist Jarðarberið og er eftir Finn Arnar Arnarson. Er hann í formi krækibers með örlitlu Íslandi á, sem með því endurspeglar jörðina í berinu

Við sama tækifæri var veitt Náttúruverndarviðurkenning  Sigríðar í Brattholti, en hana hlaut  Kári Kristjánsson, landvörður.

Sjá einnig hér