BÍ fagnar frumvarpsdrögum um stuðning við einkarekna miðla

„Blaðamannafélag Íslands fagnar fyrirætlunum stjórnvalda um að styðja við bakið á einkareknum fjölmiðlum og þakkar menntamálaráðherra fyrir frumkkvæði sitt í þeim efnum og fyrir að hafa sett málið á dagskrá.“  Þannig hefst umsögn Hjálmars Jónssonar formanns BÍ  um drög að frumvarpi um stuðning við einkarekna fjölmiðla sem verið hefur inni í samráðsgátt stjórnvalda.  Blaðamannafélagið segir  í umsögninni að þetta sé mikilvægt skref við þær aðstæður sem ríki í upplýsingagjöf í samfélagi nútímans. Þá minnir BÍ á að félagið hefur um árabil lýst þeirri meginskoðun sinni, bæði í samtölum við þingnefndir og umsögnum um þingmál, að nauðsyn bæri til að stjórnvöld grípi til fjölmiðlastyrkja af einhverju tagi til þess að tryggja fjölbreytni og fjölræði á íslenskum fjölmiðlamarkaði.  „Öflugir og fjölbreyttir fjölmiðlar eru  forsenda lýðræðislegrar samfélagsskipunar og frjórrar og ábyrgrar umræðu í samfélaginu,“ segir enn fremur í umsögninni.

Þá kemur fram að BÍ lítur á þessi frumvarpsdrög sem fyrsta skrefið í því að ríkisvaldið geri sitt til að skapa almenn  og sanngjörn rekstrarskilyrði fyrir einkarekna fjölmiðla, skilyrði sem taki mið af því sem þekkist á hinum Norðurlöndunum. Jafnframt kemur fram að félagið sakni þess að ekki sé í frumvarpsdrögunum fyrirætlanir um beinan stuðning við rannsóknarblaðamennsku, til að mynda með svipuðum hætti og stutt er við bakið á listum í landinu með launasjóðum listamanna. Loks kemur fram áskilnaður um að félagið muni fjalla með ítarlegri hætti um frumvarpið þegar það kemur fram á Alþingi og verður til umfjöllunar í nefndum þess.

Sjá umsögn BÍ í heild hér