Blaðamannafélagið: Fordæmir aðferðir Samherja

Stjórn BÍ kom saman nú í hádeginu og ræddi m.a. málefni Samherja og RÚV. Stjórnin samþykkti eftirfarandi ályktum um málið.

 

Stjórn Blaðamannafélags Íslands samþykkti neðangreinda ályktun á fundi sínum í dag miðvikudaginn 12. ágúst 2020:

 Stjórn Blaðamannafélags Íslands lýsir furðu sinni á tilraunum útgerðarfélagsins Samherja til þess að gera fréttaflutning af málefnum fyrirtækisins tortryggilegan og fordæmir þær aðferðir sem beitt er til þess.  Þær aðferðir eru ekki sæmandi fyrirtækinu og því mikilvæga hlutverki sem það gegnir í íslensku atvinnulífi, hlutverk sem því hefur verið falið af lýðræðislegum stofnunum samfélagsins. Það er einmitt það hlutverk sem gerir ítarlega og gagnrýna umfjöllun um starfsemi þess algerlega nauðsynlega.  Fyrirtækið ætti að fagna allri umfjöllun um starfsemi sína og þeim tækifærum sem það gefur til að útskýra þau sjónarmið sem liggja starfseminni til grundvallar, en ekki að bregðast við með  aðferðum sem ekki er hægt að lýsa öðru vísi en sem lágkúru, þar sem vegið er að trúverðugleika íslenskra fjölmiðla og fjölmiðlamanna.

 Samherji, eins og önnur stórfyrirtæki, eða aðrir sem fara með mikilvægt samfélagsvald, þurfa að sætta sig við gagnrýna umræðu og það aðhald sem fjölmiðlum er skylt að veita í málefnum sem varða allan almenning miklu. Það mál sem hér er til umræðu er átta ára gamalt og hafa ber hugfast að íslenskar stjórnvaldsstofnanir töldu tilefni til að taka fyrirtækið til rannsóknar.  Fjölmiðlum er að sjálfsögðu skylt að fjalla um það og á þeim tíma sem liðinn er síðan hefur fyrirtækið og forsvarsmenn þess haft óteljandi möguleika á að koma sjónarmiðum sínum á framfæri eða grípa til annarra ráða sem þeim eru tiltæk að lögum.  Það hefur ekki verið gert þar til nú og þá er það gert með aðferðum sem eru, illu heilli, fordæmalausar í íslensku samfélagi og miða að því að fæla fjölmiðla frá því að fjalla um mál sem augljóst erindi eiga til almennings.

Það er ekki nýtt að fjársterkir einstaklingar og fyrirtæki kveinki sér undan umfjöllun íslenskra fjölmiðla og telji sig ekki þurfa að búa við það aðhald sem frjáls og opin umræða veitir í lýðræðissamfélagi nútímans.  Hefðbundnir fjölmiðlar eru hryggjarstykkið í lýðræðislegri umræðu og þegar vegið er að þeim með órökstuddum dylgjum er vegið að tjáningarfrelsinu sjálfu.  Stjórn BÍ hvetur alla blaðamenn til að standa þétt saman um grundvallargildi faglegrar fjölmiðlunar og hvika hvergi í þeim efnum.