BÍ harðort um hömlur á fréttaflutningi

Blaðamannafélagið leggst í umsögn sinni um frumvarp um breytingu á lögum um meðferð einkamála alfarið gegn ákvæðum þess um hömlur á fréttaflutning af því sem fram fer í réttarsölum.  Í frumvarpinu er gert ráð fyrir öllum öðrum en dómstólnum sjálfum sé bannað að taka upp hljóð og taka myndir í þinghaldi. Umsögn BÍ er mjög afgerandi, en málið er nú statt í nefnd eftir 1. umræðu.  Hér má sjá ýmsar umsagnir um frumvarpið og hér að neðan  má lesa umsögn BÍ í heild sinni.

 

Umsögn Blaðamannafélags íslands um:

Frumvarp til laga um breytingu á lögum um meðferð einkamála, lögum um meðferð sakamála ogjleiri lögum (skilvirkni og samrœming málsmeðferðarreglna) 783. Mál. (Lagt fyrir Alþingi á 149. löggjafarþingi 2018-2019.)

Stjórn Blaðamannafélags Íslands þakkar allsherjar- og menntamálanefnd Alþingis fyrir að hafa fengið tækifæri til þess að veita umsögn um ofangreint mál.

Stjórn Blaðamannafélag íslands leggst alfarið gegn ákvæðum í frumvarpinu sem varða frekari hömlur á fjölmiðla til að greina frá því sem fram fer í réttarsölum landsins og getur ekki látið hjá líða að lýsa furðu sinni á þessum tilraunum stjórnvalda til að leggja stein í götu þess að þinghald sé fyrir opnum tjöldum. Það er grundvallaratriði í lýðræðisskipulagi að dómsvaldið sé sjálfstætt og stærsti þátturinn í aðhaldi að þessari grein ríkisvaldsins er að þinghald sé eins opið og nokkur kostur er og gagnsæi um málsmeðferð tryggt með þeim hætti. Það er lykilatriði fyrir sakborninga og aðra þá sem þurfa að leita til dómstóla og ekkert er jafn vel til þess fallið að tryggja réttaröryggi í samfélaginu.

Dómsmál rata ekki í fréttir nema þau séu fréttnæm og þau eru fréttnæm vegna þess að þau varða mikilvæga hagsmuni í samfélaginu í víðasta samhengi. Hagsmunum hverra hefði það þjónað ef umfjöllun um svonefnd hrunmál í fölmiðlum hefði verið bundin þeim takmörkunum sem greinir í frumvarpinu? Klárlega ekki hagsmunum íslensks almennings sem bar herkostnaðinn af vanhelgu klíkusambandi viðskipta og stjórnmála í íslensku samfélagi! Þegar horft er í baksýnisspegilinn til þessa tíma er það kannski einmitt yfirgengilegt siðleysið sem sker í augun. Ekkert er betur til þess fallið að vinna bug á siðleysi og klíkumyndunum en gagnsæi og við höfum ekki gagnsæið ef við leggjum stein í götu umræðunnar umfram það sem brýna nauðsyn ber til. Í frumvarpinu er ekki rökstudd nauðsynin á þeim breytingum sem þar eru boðaðar og þægindarammi sakborninga, lögmanna eða dómara á sannarlega ekki að stýra för í þessum efnum. Litlum samfélögum er sérstaklega hætt við klíkumyndunum af augljósum ástæðum. Þar gilda önnur lögmál en í stórum samfélögum þar sem fjarlægðin er meiri. Þess vegna þurfum við sem samfélag að leggja sérstaka rækt við opna umræðu og styrkja fjölmiðla í viðleitni þeirra að fjalla um mikilvæg mál í íslensku samfélagi, þ.á.m. um dómsmál. Eftir sem áður hefur svo dómari forsjá í sínum dómsal og getur lokað þinghaldi eða mælt fyrir um takmarkanir á umijöllun til að koma í veg fyrir réttarspjöll telji hann rök standa til þess.

Stjórn BÍ treystir því og trúir í ljósi framangreinds og ekki síst þeirrar hörmulegu reynslu sem við höfum nýlega af hruninu að alþingismenn, reynslunni ríkari, láti ekki þessa ósvinnu ná fram að ganga. Jafnframt er það ósk stjórnar BÍ að fá að koma fyrir allsherjarnefnd til að gera betur grein fyrir sjónarmiðum stjórnarinnar.

Virðingarfyllst,
f.h. stjórnar BÍ
Hjálmar Jónsson, formaður