BÍ hvetur fjárlaganefnd til þess að draga ekki úr styrkjum til einkarekinna miðla

Blaðamannafélag Íslands hefur sent inn athugasemdir til fjárlaganefndar Alþingis um að í fjárlagafrumvarpi ársins 2022 skuli vera gerð 2% aðhaldskrafa á styrki til einkarekinna fjölmiðla sem gerir það að verkum að þeir lækka um 8 milljónir. Á sama tíma er aukning á framlögum til Ríkisútvarpsins um 420 milljónir, sem er hærri upphæð en varið er samanlagt til styrkja allra einkarekinna fjölmiðla á Íslandi. BÍ fagnar því að auknu fé sé varið til fjölmiðla og gerir ekki athugsemdir við aukningu til RÚV, heldur hvetur nefndarmenn til þess að hækka styrki til einkarekinna fjölmiðla í samræmi við hækkun framlags til RÚV, um 8 %. Í stað þess að skerða styrki um 8 milljónir yrðu þeir auknir um 30 milljónir. 

Blaðamannafélag Íslands hefur sent svohljóðandi umsögn við fjárlagafrumvarp á fjárlaganefnd Alþingis:

Samantekt:

  • Blaðamannafélag Íslands hvetur fjárlaganefnd til að endurskoða fyrirætlanir um 2% lækkun framlags til styrkja til einkarekinna fjölmiðla á sama tíma og fjölmiðlar eru í mikilli krísu.
  • Frá árinu 2018 og til loka árs 2020 fækkaði starfandi fólki í fjölmiðlum 45 prósent, eða 731 manns.
  • Reynslan af þeim tveimur árum sem einkareknir fjölmiðlar hafa fengið opinbera styrki hefur sýnt að þeir skipta gríðarlega miklu máli fyrir fjölmiðlafyrirtæki í vexti og sem eru að þróa sjálfbæran rekstur og hafa jafnvel leitt til fjölgunar starfa á þeim miðlum.
  • Í tilfelli stærri fjölmiðlafyrirtækja, sem treysta að uppistöðu á auglýsingatekjur, þá hafa styrkirnir mildað það högg sem kórónuveirufaraldurinn veitti þeim ásamt breyttum forsendum á auglýsingamarkaði og gert þeim kleift að forðast fjöldauppsagnir.
  • Blaðamannafélagið fagnar því að hækkun er til málaflokksins í heild sinni en hvetur fjárlaganefnd til þess að endurskoða útdeilingu þessa fjármagns með tilliti til stöðu einkarekinna miðla.
  • Í stað þess að lækka styrki til einkarekinna miðla um 2% hvetur BÍ til þess að styrkir verði auknir í samræmi við auknar fjárveitingar til Ríkisútvarpsins, 8%. Það þýðir aukning styrkupphæðar um 30 milljónir í stað samdráttar um 8 milljónir.

 Umsögn:

Blaðamannafélag Íslands gagnrýnir aðhaldskröfu upp á 2% sem gerð er í fjárlagafrumvarpi ársins 2022 á styrki til einkarekinna fjölmiðla og hvetur fjárlaganefnd Alþingis til þess að endurskoða þá tillögu með tilliti til stöðu einkarekinna fjölmiðla og mikilvægi þessara styrkja.  

Auk þess vill Blaðamannafélagið benda á að á sama tíma og styrkir til einkarekinna fjölmiðla eru skertir milli ára er aukning á framlagi til Ríkisútvarpsins upp á 430 milljónir sem er hærri upphæð en allir styrkir til einkarekinna fjölmiðla á Íslandi samanlagt. Lækkun styrkja til einkarekinna fjölmiðla milli ára er jafnframt í helberu ósamræmi við stöðu einkarekinna miðla, sem eru í meiri krísu en nokkurn tímann hefur þekkst. 

Blaðamannafélagið fagnar því að í stjórnarsáttmála nýrrar ríkisstjórnar sé ákvæði um að staða einkarekinna fjölmiðla verði metin áður en núverandi stuðningskerfi renni út og ákveðnar aðgerðir til að tryggja fjölbreytni á fjölmiðlamarkaði og öflugt almannaútvarp. Í fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar er jafnframt gert ráð fyrir áframhaldandi styrkjum til einkarekinna fjölmiðla. 

Ekki þarf að fjölyrða um mikilvægi fjölmiðla í lýðræðissamfélagi. Í stjórnarsáttmálanum er áréttað að „frjálsir fjölmiðlar eru forsenda opinnar lýðræðislegrar umræðu og veita stjórnvöldum, atvinnulífinu og helstu stofnunum samfélagsins nauðsynlegt aðhald. Ríkisstjórnin leggur áherslu á fjölbreytni í flóru fjölmiðla með öflugu almannaútvarpi og einkareknum fjölmiðlum,“ líkt og þar segir orðrétt. 

Ekki þarf heldur að reka í löngu máli rekstrarstöðu einkarekinna miðla. Undanfarin ár hafa erlendir tæknirisar á borð við Facebook og Google sópað til sín sístækkandi hlutfalli auglýsingatekna án þess að greiða hér skatta eða önnur gjöld til samfélagsins. Afleiðingin af þessari skökku samkeppnisstöðu og yfirburðum í ljósi fákeppnisstöðu þessara risafyrirtækja er gríðarlegur samdráttur í auglýsingasölu sem hefur leitt til þess að rekstrargrundvelli margra fjölmiðla hefur nánast verið kippt undan þeim. Niðurstaðan er taprekstur sem leiðir af sér uppsagnir, gjaldþrot og samþjöppun. Til marks um það hve bein áhrif þessa samdráttar er alvarleg í samfélagslegu samhengi hefur störfum í fjölmiðlum fækkað úr 2.238 í árslok 2013 í 876 um síðustu áramót samkvæmt tölum sem Hagstofa Íslands birti í sumar. Þróunin hefur verið hröð undanfarið. Frá árinu 2018 og til loka árs 2020 fækkaði starfandi fólki í fjölmiðlum 45 prósent, eða 731 manns. 

Það þýðir einfaldlega að færri blaðamenn eru til þess að sinna því mikilvæga starfi sem felst í því að tryggja opna lýðræðislega umræðu og veita stjórnvöldum, atvinnulífinu og helstu stofnunum samfélagsins nauðsynlegt aðhald, líkt og segir í stjórnarsáttmálanum að ríkisstjórnin leggi áherslu á. 

Reynslan af þeim tveimur árum sem einkareknir fjölmiðlar hafa fengið opinbera styrki hefur sýnt að þeir skipta gríðarlega miklu máli fyrir fjölmiðlafyrirtæki í vexti og sem eru að þróa sjálfbæran rekstur og hafa jafnvel leitt til fjölgunar starfa. Til að mynda má benda á að á árinu 2020 fékk útgáfufélag Stundarinnar styrk upp á 17,8 milljónir króna en tekjur þess jukust um 38,8 milljónir króna, eða 21 prósent. Á sama ári fékk útgáfufélag Kjarnans styrk upp á 9,3 milljónir króna en tekjur þess jukust um 18,3 milljónir króna á því ári, eða 31 prósent. Í tilfelli þessarra miðla sést skýrt að hver króna í styrk leiðir af sér aðra krónu í nýjum tekjum. Þær tekjur umbreytast svo í ný störf. Í tilfelli stærri fjölmiðlafyrirtækja, sem treysta að uppistöðu á auglýsingatekjur, þá hafa styrkirnir mildað það högg sem kórónuveirufaraldurinn veitti þeim, ásamt breyttum forsendum á auglýsingamarkaði, og gert þeim kleift að forðast fjöldauppsagnir. 

Framlög til fjölmiðla á árinu 2022 eru áætluð samkvæmt frumvarpinu 5.560 þús og hækka um 420 milljónir frá fjárlögum 2021, sem samsvarar 8,2%. Blaðamannafélagið fagnar því að hækkun er til málaflokksins í heild sinni en hvetur fjárlaganefnd til þess að endurskoða útdeilingu þessa fjármagns með tilliti til stöðu einkarekinna miðla líkt og að ofan er greint. 

Miðað við fjárlög 2021 er aukningin í fjárlagafrumvarpi 2022 vegna skuldbindandi samninga vegna fjölmiðla, sem eru framlög til Ríkisútvarpsins, 430 milljónir. Framlög til Ríkisútvarpsins aukast því um 430 milljónir miðað við fjárlagafrumvarp 2022 og fara úr 4.655 þús á fjárlögum 2021 í 5.085 þús. samkvæmt fjárlagafrumvarpi ársins 2022. Þó svo að þessi aukning sé fjármögnuð með 2,5% hækkun útvarpsgjalds skýtur það skökku við að á sama tíma og ríkið telur að nauðsynlegt sé að hækka framlög til Ríkisútvarpsins um 430 milljónir sé gerð aðhaldskrafa upp á 2% til styrkja til einkarekinna fjölmiðla. Til þess að setja þessa hækkun framlaga til Ríkisútvarpsins í samhengi má benda á að hún er um 40 milljónum krónum meiri en samanlagðir styrkir til allra einkarekinna fjölmiðla landsins á árinu 2022. 

Þá má benda á að auking á framlagi til fjölmiðla í fjárlögum er meiri en fjármálaáætlun gerir ráð fyrir og nemur aukningin um 170 milljónum, sem er 3,1%. Í fjármálaáætlun er gert ráð fyrir 5.390 þús en í fjárlagafrumvarpi 5.560. Í fjármálaáætlun er ekki gert ráð fyrir aðhaldskröfu til málaflokksins heldur aukningu um um það bil 200 milljónir milli ára næstu fimm árin. 

Í fjárlagafrumvarpi 2022 er gert ráð fyrir því að helstu verkefni á málefnasviði fjölmiðla verði eftirfarandi:

•            Að veita einkareknum fjölmiðlum styrki.
•            Að undirbúa mat á árangri af stuðningskerfi við einkarekna fjölmiðla.
•            Að gera rannsókn á stöðu einkarekinna fjölmiðla, m.a. m.t.t. mats á árangri af stuðningskerfi við einkarekna fjölmiðla. 

Blaðamannafélagið tekur undir nauðsyn þess að fram fari úttekt á árangri stuðningskerfisins en telur víst, eftir samtal við eigendur og ábyrgðamenn fjölmiðla, að niðurstaðan muni leiða í ljós enn meiri þörf á styrkjum en áður - ekki minni, líkt og gert er ráð fyrir í frumvarpinu.

Að öllu ofansögðu ítrekar Blaðamannafélag Íslands því áskorun sína til fjárlaganefndar að í stað þess að draga úr styrkjum til einkarekinna fjölmiðla milli ára verði gert ráð fyrir því í fjárlagafrumvarpinu að auka þá að minnsta kosti til samræmis við þá aukningu sem gert er ráð fyrir að fari til Ríkisútvarpsins. Ef aukingin til Ríkisútvarpsins er um 8% mætti því auka styrki til einkarekinna fjölmiðla að minnsta kosti um sömu prósentutölu í þessari atrennu, sem nemur rúmum 30 milljónum, í stað þess að lækka styrkina um 2%, 8 milljónir.

Að lokum áréttar Blaðamannafélag Íslands að til þess að standa við áform sín um að ráðast í aðgerðir til að tryggja fjölbreytni á fjölmiðlamarkaði og öflugt almannaútvarp þarf ríkisstjórnin – og í framhaldinu fjárlaganefnd – að taka til skoðunar að grípa til enn frekari aðgerða en beinna styrkja til einkarekinna fjölmiðla. Bendir Blaðamannafélagið í því samhengi á áskorun félagsins til stjórnmálaflokka sem send var út fyrir síðustu kosningar þar sem félagið leggur til stuðnings  einkarekinna fjölmiðla.

Virðingarfyllst, f.h. stjórnar BÍ
Sigríður Dögg Auðunsdóttir