BÍ kaupir skrifstofuhúsnæði í Ármúla

BÍ hefur keypt efri hæðina í Ármúla 22.  (Mynd: Kristinn Magnússon)
BÍ hefur keypt efri hæðina í Ármúla 22. (Mynd: Kristinn Magnússon)

Stjórn Blaðamannafélags Íslands hefur samþykkt að kaupa húsnæði í Ármúla 22 og eftir stjórnarfund í dag sendi Hjálmar Jónsson út tilkynningu fyrir hönd stjórnarinnar þar sem gerð er ítarleg grein fyrir þessum fasteignaviðskiptum. Greinargerðin er svo hljóðandi:

Reykjavík 9. apríl 2021

Blaðamannafélag Íslands hefur fest kaup á annarri hæð hússins númer 22 við Ármúla í Múlahverfinu í Reykjavík, skammt frá höfuðstöðvum félagsins við Síðumúla 23.  Með kaupunum tryggir félagið sér möguleika á aukinni þjónustu við félagsmenn í óvissri framtíð, auk þess sem fjármunum félagsins er komið í örugga höfn og góða ávöxtun á sama tíma og vextir eru lágir og lítil ávöxtun á eigin fé.

Húsnæðið er um 140 fermetrar að stærð, sem er svipað og fundarsalur félagsins við Síðumúla. Gengið var frá kaupunum í desember og hefur afsal verið gefið út og Blaðamannafélagið hirt arð af fjáfestingunni frá 1. febrúar síðastliðnum.  Kaupverð húsnæðisins var 36,5 milljónir króna, sem er um 85% af fasteignamati.  Kaupin voru fjármögnuð með eigin fé félagssjóðs án nokkurrar lántöku.  Við kaupin yfirtók félagið langtímaleigusamning um húsnæðið, sem er uppsegjanlegur með sex mánaða fyrirvara af beggja hálfu.  Miðað við núverandi forsendur greiðir fjárfestingin sig upp á innan við 20 árum.

Tvennt var það einkum sem réði ákvörðun stjórnar félagsins um að ráðast í þessa fjárfestingu. Annars vegar að tryggja sér húsnæði undir aðstöðu fyrir félagsmenn í grennd við höfuðstöðvar félagsins sé það álitið fýsilegt og nauðsynlegt í náinni framtíð. Tæknin hefur gjörbylt starfsumhverfi hefðbundinna fjölmiðla á undanförnum 30 árum og nýjar áskoranir litið dagsins ljós nánast frá ári til árs, svo ör hefur þróunin verið. Sjálfstætt starfandi blaðamönnum hefur fjölgað og fastar starfstöðvar skipta minna máli en áður, sem gæti gert það fýsilegt og fjárhagslega hagkvæmt að skapa aðstöðu fyrir þennan stækkandi hóp félaga í BÍ.  Undir þá framtíðarsýn þarf félag eins og Blaðamannafélag Íslands að vera búið og eru kaup félagsins á ofangreindu húsnæði þáttur í þeim undirbúningi.

Að hinu leytinu er Blaðamannafélagið nokkuð stöndugt félag, sem ávaxtað hefur fé sitt vel á undanförnum árum og á fé í sjóðum.  Það leggur stjórn félagsins þá skyldu á herðar að ávaxta það fé eins vel og kostur er með sem allra minnstri áhættu.  Félagið tapaði ekki fjármunum á hruninu 2008, öfugt við flesta aðra, sem áttu fé í hrundum bönkum landsins. Á þeim tíma voru vextir háir og ávöxtun á eigin fé félagsins góð.  Því er öfugt farið nú þegar innlánsvextir nálgast núllið og ábyrgðarhluti að bregðast ekki við þegar tækifærin bjóðast. Þar til viðbótar hefur fjárfesting í steinsteypu ávallt verið góður kostur á Íslandi og ekki ólíklegt að fasteignaverð í Múlunum eigi eftir að hækka umfram verðlag á næstu árum.

Þar til viðbótar eru Múlarnir spennandi kostur í nágrenni miðborgarinnar.  Meðal annars vegna bílastæðavandræða þar og hás leiguverðs hefur spurn eftir skrifstofuhúsnæði í Múlunum aukist og verð hækkað.  Áætlanir um borgarlínu ýta þar undir, en gert er ráð fyrir að hún komi meðfram Suðurlandsbraut sem styttir ferðatíma í allar áttir.  Auk þess eru Múlarnir hverfi sem er í þróun, verið að deiliskipuleggja það að nýju, og gert ráð fyrir mikilli fjölgun íbúða á svæðinu.  Nálægðin við skrifstofu og fundarsali félagsins í Síðumúla er líka kostur, en tæpur 5 mínútna gangur er á milli Síðumúlans og Ármúlans.

Fyrir hönd stjórnar BÍ,

Hjálmar Jónsson