Blaðamaður þagnar - ekki fréttin

Í vikunni var ýtt úr vör verkefninu „The Daphe Project“ sem er liður í átaki franska blaðamannsins Laurent Richard sem er við Newsemum í Washington DC og er kallað „Forbidden Stories“.  Hugmyndin að baki „Forbidden Stories“ var að búa til vettvang þar sem blaðamenn sem töldu öryggi sínu með einhverjum hætti ógnað gætu hlaðið upp gögnum um það sem þeir voru að vinna að og þannig gert þeim sem vildu þagga niður í þeim erfiðara fyrir. Eins var þetta hugsað til þess að fæla hugsanlega meingerðarmenn frá því að ráðast gegn blaðamönnum með því að upplýst væri að þó tækist að þagga niður í blaðamanni þá væri ekki hægt að þagga niður fréttir hans,  gögn hans væru til á öruggum stað og aðrir myndu þá taka upp þráðinn.

Verkefnið sem fór í gang í vikunni tengist maltnesku blaðakonunni Daphne Caruana, sem var drepin í október í fyrra með bílsprengju en hún hafði unnið að því að upplýsa um spillingu í heimalandi sínu. Að þessu verkefni koma fjölda margir blaðamenn víðs vegar að úr heiminum  sem hafa tekið upp lausa enda í þeim málum sem hún var að skrifa um og haft mikla samvinnu að leiðarljósi, meðal annars unnið  í tengslum  við ICIJ (Alþjóðasamtök rannsóknarblaðamanna), en þau samtök voru drifkrafturinn í umfjölluninni um Panamaskjölin. Gríðarleg áhersla er lögð á mátt samstarfs og tengslanets blaðamanna í þessu og hafa blaðamenn frá New York Times, Guardian, Reuters, og stórum blöðum í Frakklandi og Þýskalandi komið að þessu verkefni.

Þegar hafa birst fréttir sem miða að því að halda lifandi fréttum um máefnin sem Daphne Caruana fjallaði um og má þar meðal annar nefna eftirfarandi: New York Times, It can happen here; Reuters , The silencing of;  Guardian, Still in danger.  

 

Hér má sjá kynningarmyndband um Daphe verkefnið